Leikur Tyrklands og Íslands hefst klukkan 16 að íslenskum tíma og er sýndur á RÚV en bein textalýsing verður á Vísi. Þetta er fyrri leikurinn af tveimur í þessari törn því íslenska liðið mætir svo Slóvakíu í Bratislava á sunnudaginn klukkan 17.
Á Facebook-síðu KKÍ segir að undirbúningur hafi gengið vel og að staðan á íslenska hópnum sé góð. Mikill spenningur sé í borginni vegna leiksins og að þegar íslensku stelpurnar hafi verið á göngu um bæinn í gær hafi þær verið stoppaðar og beðnar um eiginhandaráritanir og myndir.

Hópurinn mætti svo á leik hjá Anadolu Efes og Real Madrid í EuroLeague í gærkvöld, í nýrri 15 þúsund manna höll, og upplifði mikla stemningu í 79-73 sigri heimamanna en uppselt var á leikinn.

Íslenska liðið lék afar vel í fyrri leik sínum við Tyrkland í undankeppninni en tapaði með sjö stiga mun, 72-65. Tyrkir hafa unnið alla fjóra leiki sína og eru efstir í riðlinum.
Ísland hefur unnið einn af fjórum leikjum sínum til þessa, 77-73 gegn Rúmeníu í nóvember, en situr neðst í F-riðli vegna innbyrðis úrslita gegn Rúmenum. Leikirnir í dag og á sunnudag eru síðustu leikir Íslands í undankeppninni.
