Þetta kom fram á fyrsta degi aðalmeðferðar málsins. Alfreð Erling, 46 ára Norðfirðingur, er talinn hafa orðið eldri hjónum að bana sem höfðu árin á undan séð aumur á honum, boðið í kaffi og gefið honum að borða þegar hann var svangur. Alfreð virðist síðustu ár hafa verið haldinn miklum ranghugmyndum og allar líkur á því að hann verði metinn ósakhæfur.
Lögreglumaður sem starfað hefur um árabil hjá tæknideild lögreglu kom fyrir dóminn í dag. Honum var flogið austur á firði þann 22. ágúst þegar hjónin fundust látin á heimili sínu. Hann sagði fjölmörg skóför hafa sést í íbúðinni en tæknideildin hefði ekki haft sem bestan búnað til að framkvæmda nægjanlega rannsókn á þeim. Viku síðar hefði rannsókn verið framhaldið með sérstöku efni sem hentaði vel til að mynda skóför í blóði.
Lögreglumaðurinn sagði að skóför í gólfi hefðu verið borin saman við skóna sem Alfreð Erling klæddist þegar hann var handtekinn í Reykjavík. Sólinn á skónum var einkennandi, með sexhyrndu munstri, og fundust víða á heimili hjónanna. Bæði höfðu þau greinilega stigið í blóð og svo hafði fundist blóð á skónum sjálfum. Hann sagði yfirgnæfandi líkur að förin væru eftir skó Alfreðs.
Þá sagði hann frá skemmdum sem hefðu fundist í eldhússtól sem stóð einum til tveimur metrum frá hurðinni að baðherberginu, þar sem hjónin fundust látin. Far í stólnum benti til þess að það væri eftir hamar. Þá bentu för á þeim látnu sömuleiðis til þess að vera eftir hamar eða álíka áhald.
Alfreð ók bíl hjónanna frá Neskaupstað og alla leið til Reykjavíkur þá um nóttina. Hann var handtekinn í bílnum við Snorrabraut í Reykjavík síðdegis daginn eftir og sagðist þá yfirvegaður vera á leið í Hallgrímskirkju að vinna verk fyrir djöfulinn eða guð. Í bíl hjónanna sem Alfreð ók fannst hamar sem kom heim og saman við grunsemdir lögreglumannsins um áhaldið sem notað var til að bana hjónunum.
Aðalmeðferðinni í málinu verður framhaldið á morgun. Þá koma meðal annars fyrir dóminn fleiri lögreglumenn og sömuleiðis réttargeðlæknir þar sem væntanlega verður kafað ofan í ástand Alfreðs Erlings með hliðsjón af skynsamlegri refsingu fyrir verknaðinn.
Málinu lýkur svo á miðvikudaginn með málflutningi.