Jón Páll Haraldsson skólastjóri sendir foreldrum og forráðamönnum póst á tólfta tímanum. Þar segist hann þurfa að flytja mjög óhugguleg tíðindi sem komi aftan að öllum.
„Eftir farsæla árshátíð í Laugardalshöll héldu nemendur skólans heim í háttinn. Í góða vetrinu skruppu nokkrir nemendur upp á þak skólans. Þó það sé ekki beint í leiðinni heim eða leyfilegt í neinum skilningi þá gerist það reglulega að krakkar klifri þar upp,“ segir Jón Páll.
„Á afviknum stað uppi á þakinu ráku krakkarnir augu í poka sem þeim fannst ekki eiga heima þar. Í ljós kom að í pokanum var eitthvað sem þau töldu vera skotvopn, sem nú hefur verið staðfest. Krakkarnir höfðu strax samband við lögreglu sem kom á svæðið og tók vopnið. Engin skotfæri fundust.“
Ástmundur Rúnar Gylfason aðstoðaryfirlögregluþjónn á höfuðborgarsvæðinu staðfesti fund vopnsins við fréttastofu. Rannsókn lögreglu er hafin. Jón Páll segir hana munu ná til efnis úr eftirlitsmyndavélum skólan sem geyma efni tvær vikur aftur í tímann.
„Þetta er okkur öllum mikið áfall og veldur óhug. Fyrir mitt leyti get ég þó ekki með nokkru móti tengt þetta við eitt né neitt í skólastarfinu undanfarna mánuði. Ég bið ykkur öll um að ræða þetta heima við og ég mun veita ykkur ítarlegri upplýsingar þegar og ef ég fæ þær.“