Körfubolti

Báðu leik­manninn af­sökunar á vand­ræða­legum mis­tökum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Terrence Shannon lék með Texas Tech áður en hann skipti yfir í Illinois skólann þar sem hann var í tvö ár. Þessi tvö ár voru nógu góð til að treyja hans fór upp í rjáfur.
Terrence Shannon lék með Texas Tech áður en hann skipti yfir í Illinois skólann þar sem hann var í tvö ár. Þessi tvö ár voru nógu góð til að treyja hans fór upp í rjáfur. Getty/y John E. Moore III

Þetta átti að vera stórt kvöld fyrir fyrrum leikmanns skólans en breyttist fljótt í það að  vera aðhlátursefni á netmiðlum.

Forráðamenn Illinois skólans hafi beðið fyrrum leikmanns skólans, Terrence Shannon yngri, afsökunar á uppákomunni, sem varð þegar átti að heiðra hann um helgina.

Í hálfleik á körfuboltaleik Illinois og Michigan State þá var Shannon kallaður út á mitt gólf vegna þess að það átti að setja keppnistreyju hans upp í rjáfur á höllinni sem þakklæti fyrir frábæra frammistöðu hans í leikjum fyrir skólann.

Stór mistök voru hins vegar gerð við uppsetningu fánans með treyju Shannons. Vandamálið? Jú treyjan hans snéri öfugt.

Shannon sjálfur gat ekki annað en brosað vandræðalega þegar hann sá útkomuna.

„Við sjáum auðvitað eftir því sem gerðist í hálfleik þegar við ætluðum að halda upp á feril Shannon. Það er synd að þetta hafi komið fyrir. Auðvitað hengdi ég ekki sjálfur upp treyjuna en ég er samt sem áður ábyrgur fyrir öllu því sem gerist í þessari byggingu,“ sagði Josh Whitman, yfirmaður íþróttadeildar Illinois skólans.

„Við verðum að gera okkur öll grein fyrir því að mistök geta átt sér stað í lífinu. Það eru samt aðstæður sem þau mega alls ekki gerast. Í kvöld stálum við þessari stóru stund af Shannon og það er okkur að kenna. Við báðum hann afsökunar á þessu og líka móður hans. Við viljum líka biðja allt okkar stuðningsfólk afsökunar og alla þá sem voru spenntir fyrir að upplifa þessa stund,“ sagði Whitman.

Shannon hjálpaði skólanum í fyrra að komast í fyrsta sinn í tuttugu ár í átta liða úrslit úrslitakeppni háskólaboltans þar sem hann var að skora 23 stig í leik. Hann var síðan valin af Minnesota Timberwolves í nýliðvalinu.

Atvikið má sjá hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×