Samkvæmt upplýsingum frá fréttamanni okkar á staðnum er bílstjórinn óreyndur og taldi sig geta snúið rútunni við á túninu. Það gekk ekki og er rútan pikkföst á túninu. Lögregla er mætt á vettvang til að greiða úr málum.
Vísir var í beinni frá vettvangi. Útsendinguna má sjá í spilaranum hér fyrir neðan.
Ásmundur Einarson, eigandi ME Travel, segir í samtali við Vísi að rútan og bílstjóri hennar hafi verið á vegum fyrirtækisins með hóp erlendra ferðamanna.
Bílstjórinn sé ung stúlka sem var nýbyrjuð að aka rútunni. Hún hafi reynt að snúa rútunni við fyrir framan Höfða en farið upp á kant og rútan þá byrjað að sökkva niður. Ökumaðurinn hafi haldið áfram og fest sig í óðagoti.
„Við berum náttúrulega bara fulla ábyrgð á þessu tjóni og bætum fyrir þann skaða sem orðið hefur ,“ segir hann.
Kranabílar séu nú á leiðinni til þess að losa rútuna. Ásmundur segir að búið sé að þrengja svo að umferð við Höfða að það sé að verða ótæ kt að fara þar um á rútu.

Anna Karen Kristinsdóttir, móttökufulltrúi Reykjavíkurborgar sem hefur umsjón með Höfða, hafði ekki heyrt af uppákomunni þegar fréttamaður náði af henni tali. Hún ætlaði að kanna málið.
Eva Bergþóra Guðbergsdóttir, upplýsingafulltrúi hjá Reykjavíkurborg, segir leiðinlegt að sjá farið svo illa með grasið við Höfða og að borgin muni láta kanna tjónið. Gott sé að ekki hafi orðið slys á fólki. Hún segir að passað hafi verið vel upp á grasið við Höfða. Þannig hafi til dæmis verið gætt sérstaklega að því þegar samið var um afnot af Höfða fyrir tökur á bandarískri kvikmynd um leiðtogafundinn í fyrra.
Höfði er vinsæll ferðamannastaður enda fór leiðtogafundur Ronalds Reagan Bandaríkjaforseta og Mikhail Gorbachev leiðtoga Sovíetríkjanna fram þar í október 1986.
Fleiri myndir af vettvangi má sjá að neðan.



Uppfært klukkan 14:45
Búið er að koma rútunni út af grasflötinni með frekari skemmdum á grasinu auk þess sem stuðari aftan á rútunni gaf sig. Sjá má upptöku af björgunaraðgerðum í spilaranum að ofan.