Innlent

Kennaraverkföll skella á

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Kennaraverkföllin eru ýmist tímabundin eða ótímabundin.
Kennaraverkföllin eru ýmist tímabundin eða ótímabundin. Grafík/Sara

Verkföll eru skollin á í fimm framhaldsskólum og einum tónlistarskóla en fleiri vofa yfir takist kennurum, sveitarfélögum og ríkinu ekki að ná saman. Fréttastofa tók saman hvar og hvenær verkföllin fyrirhuguðu eru.

Föstudaginn 21. febrúar hófust ótímabundin verkföll í fimm framhaldsskólum víðsvegar um land ásamt einum tónlistarskóla.

Um er að ræða Menntaskólann á Akureyri, Verkmenntaskólann á Akureyri, Borgarholtsskóla, Verkmenntaskóla Austurlands og Fjölbrautaskóla Snæfellinga auk Tónlistarskólans á Akureyri.

Þá hefjast ótímabundin verkföll í öllum leikskólum Kópavogs 3. mars næstkomandi. Leikskólarnir eru 22 talsins.

Sama dag hefjast einnig verkföll í grunnskólum sveitarfélaganna Ölfus, Hveragerðisbæ og Akraneskaupstað. Einn grunnskóli er í Ölfusi, einn í Hveragerðisbæ og tveir í Akraneskaupstað. Verkföllin verði í gildi frá 3. mars til og með 21. mars 2025.

Starfsmenn í leikskólum Hafnarfjarðar og Fjarðabyggðar bætast við hóp leikskólakennara í verkfalli.

Ótímabundið verkfall í öllum leikskólum í Hafnarfirði hefst 17. mars. Ótímabundið verkfall í leikskólum Fjarðabyggðar stendur frá og með 24. mars.

Leikskólastarfsmenn í Snæfellsbæ hafa verið í verkfalli síðan 1. febrúar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×