Skoðun

Borgara­legt og hernaðar­legt

Bjarni Már Magnússon skrifar

Þann 20. febrúar sl. flutti utanríkisráðherra munnlega skýrslu um öryggi og varnir Íslands á Alþingi, og í kjölfarið fóru fram umræður. Tilefnið voru það sem utanríkisráðherra kallaði breyttar áherslur Bandaríkjanna í utanríkismálum. Í umræðunum sem fóru fram í kjölfar skýrslunnar vék Grímur Grímsson, þingmaður Viðreisnar, að umhugsunarverðu atriði:

„Við erum herlaus þjóð en að mínu mati er nauðsynlegt að skilgreina hlutverk lögreglu og Landhelgisgæslu á ófriðartímum enn betur en nú er. Um er að ræða borgaralegar stofnanir sem verða vegna okkar aðstæðna að sinna að einhverju marki verkefnum sem í öðrum ríkjum væri sinnt af her.”

Friðelskandi þjóð

Íslenskir ráðamenn hafi ekki lagt mikla áherslu á þessa staðreynd í gegnum tíðina, þ.e. að borgaralegar stofnanir hérlendis sinni verkefnum sem í öðrum ríkjum er sinnt af herjum. Stafar það að einhverju leyti af þeirri útbreiddu hugmynd að Ísland sé sérstaklega friðelskandi þjóð og þeirra viðbragða sem hófsamar hugmyndir um uppbyggingu öryggis- og varnarmála hérlendis hafa fengið í gegnum tíðina.

Aðgreiningarskylda

Þetta fyrirkomulag – að fela borgaralegum stofnunum verkefni á sviði öryggis- og varnarmála – hlýtur þó að hafa sín þolmörk. Samkvæmt grundvallarreglu alþjóðlegs mannúðarréttar ber að gera skýran greinarmun á annars vegar almennum borgurum og borgaralegum mannvirkjum og hins vegar hermönnum og hernaðarmannvirkjum. Þessi aðgreining er nauðsynleg þar sem hermenn og hernaðarleg mannvirki eru lögmæt skotmörk í hernaði, á meðan almennir borgarar og borgaraleg mannvirki njóta sérstakrar verndar. Skortur á slíkri aðgreiningu getur því haft alvarlegar afleiðingar – og verið spurning um líf og dauða.

Fordómalaus skoðun

Af orðum utanríkisráðherra er ljóst að leggja á mikla áherslu á öryggis- og varnarmál á næstunni. Í ræðu ráðherrans kom m.a. fram að í vor væri stefnt að því að leggja fram skýrslu um öryggis- og varnarmál og síðan stefnu í öryggis- og varnarmálum í haust. Í þeirri vinnu á að „rýna fordómalaust í laga- og stofnanaumgjörð öryggis- og varnarmála.“ Mikilvægt er að það mat feli í sér greiningu á því hvort núverandi og fyrirhugað fyrirkomulag standist þær skuldbindingar sem hvíla á Íslandi um aðgreiningu borgaralegra stofnana frá hernaðartengdum. Að öðrum kosti gæti Ísland staðið frammi fyrir siðferðilegum og lagalegum vanda.

Höfundur er prófessor og deildarforseti við lagadeild Háskólans á Bifröst.




Skoðun

Skoðun

Sam­úð

Jón Steinar Gunnlaugsson skrifar

Sjá meira


×