Körfubolti

Ruglaðist á Tramadol og Toradol og féll á lyfja­prófi

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Bobby Portis verður fjarri góðu gamni hjá Milwaukee Bucks á næstunni.
Bobby Portis verður fjarri góðu gamni hjá Milwaukee Bucks á næstunni. getty/Stacy Revere

NBA hefur dæmt Bobby Portis, leikmann Milwaukee Bucks, í 25 leikja bann fyrir að brjóta lyfjareglur deildarinnar. Nafnaruglingur varð til þess að hann féll á lyfjaprófi.

Verkjalyfið Tramadol fannst í sýni Portis. Samkvæmt umboðsmanni hans tók leikmaðurinn lyfið inn fyrir mistök. Hann ætlaði að taka annað verkjalyf með svipað nafn, Toradol, en aðstoðarmaður hans lét hann hafa vitlaust lyf.

Leikmönnum NBA er heimilt að taka Toradol en ekki Tramadol sem er nýkomið á bannlista.

Portis ætlar ekki að áfrýja úrskurði NBA. Portis verður laus úr banninu 8. apríl, þegar fjórir leikir eru eftir af deildarkeppninni.

Portis er lykilmaður í liði Milwaukee sem er í 5. sæti Austurdeildarinnar með þrjátíu sigra og 24 töp. Á þessu tímabili er hann með 13,7 stig og 8,3 fráköst að meðaltali í leik.

Portis, sem varð þrítugur fyrr í mánuðinum, hefur leikið í NBA síðan 2015. Hann gekk í raðir Milwaukee 2020 og varð meistari með liðinu ári seinna. Hann hefur einnig leikið með Chicago Bulls, Washington Wizards og New York Knicks.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×