Fótbolti

Frakkar á toppinn fyrir slaginn við Ís­land

Sindri Sverrisson skrifar
Marie-Antoinette Katoto fagnaði sigurmarki sínu í kvöld með stæl, á vellinum í Toulouse.
Marie-Antoinette Katoto fagnaði sigurmarki sínu í kvöld með stæl, á vellinum í Toulouse. Getty/Catherine Steenkeste

Frakkland kom sér fyrir á toppi riðils Íslands í A-deild Þjóðadeildar kvenna í fótbolta í kvöld, með 1-0 sigri gegn Noregi á heimavelli.

Stelpurnar okkar í íslenska landsliðinu gerðu markalaust jafntefli í Sviss fyrr í kvöld en halda næst til Frakklands og mæta þar heimakonum í Le Mans á þriðjudaginn.

Frakkar voru í efsta styrkleikaflokki þegar dregið var í riðla og eru strax komnir á topp riðilsins en Ísland á möguleika á að breyta því á þriðjudagskvöld.

Til þess þarf liðið að gera betur en Noregur sem þó átti sjö marktilraunir í kvöld, þar af fjórar á rammann.

Eina mark leiksins kom tæpum tuttugu mínútum fyrir leikslok þegar Marie-Antoinette Katoto, markahrókurinn úr PSG, skoraði fyrir Frakkana.

Portúgal fékk stig gegn Englandi

Í riðli 1 gerðu Holland og Þýskaland 2-2 jafntefli. Lineth Beerensteyn skoraði bæði mörk Hollendinga en Lea Schüller og Sjoeke Nüsken fyrir Þjóðverja. Austurríki er því efst í riðlinum eftir 1-0 sigur gegn Skotlandi.

Portúgal og England gerðu einnig jafntefli, í riðli 3, 1-1. Alessia Russo kom Englendingum yfir á 15. mínútu en Francisca Nazareth jafnaði metin þegar korter var til leiksloka.

Spánverjar eru í efsta sæti riðilsins eftir ótrúlegan 3-2 sigur gegn Belgum í fyrsta leik Belgíu undir stjórn Elísabetar Gunnarsdóttur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×