Handbolti

Blom­berg-Lippe í góðri stöðu í Evrópu­deildinni

Smári Jökull Jónsson skrifar
Andrea Jacobsen í leik með íslenska landsliðinu.
Andrea Jacobsen í leik með íslenska landsliðinu. Vísir/Getty

Andrea Jacobsen skoraði eitt mark fyrir Blomberg-Lippe sem vann öruggan sigur á ungverska liðinu Motherson Mosonmagyarovari í Evrópudeildinni í handknattleik í dag.

Andrea er ekki eini íslenski landsliðsmaðurinn í liði Blomberg-Lippe en Díana Dögg Magnúsdóttir er einnig á mála hjá félaginu en var ekki með í dag vegna meiðsla.

Fyrir leikinn í dag var Blomberg-Lippe í efsta sæti C-riðils Evrópudeildarinnar og hafi unnið þrjá af fjórum leikjum sínum.

Sigurgangan hélt áfram í dag. Gestirnir byrjuðu reyndar betur og komust í 9-6 í fyrri hálfleiknum en heimakonur sneru dæminu við fyrir hlé og voru 15-13 yfir í hálfleik.

Jafnt var á með liðunum lengst af í seinni hálfleik en um hann miðjan náði Blomberg-Lippe 5-1 áhlaupi og komst fjórum mörkum yfir. Þann mun náðu gestirnir ekki að brúa, munurinn varð mestur sex mörk og heimaliðið fagnaði að lokum 33-28 sigri og er því áfram eitt í efsta sæti riðilsins.

Andrea Jacobsen skoraði eitt mark úr þremur skottilraunum í leiknum í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×