Fótbolti

Tap gegn botnliðinu eftir sigurinn á Víkingum

Smári Jökull Jónsson skrifar
Sverrir og félagar máttu sætta sig við tap í dag.
Sverrir og félagar máttu sætta sig við tap í dag. Vísir/Getty

Panathinaikos tapaði dýrmætum stigum í toppbaráttu grísku deildarinnar í knattspyrnu í dag. Liðið sló Víkinga út úr Sambandsdeild Evrópu á fimmtudaginn.

Panathinaikos og Víkingur háðu harða baráttu í umspili Sambandsdeildarinnar á dögunum þar sem Víkingar féllu úr leik á grátlegan hátt eftir frábæra frammistöðu.

Gríska stórliðið, með Sverri Ingason á sínum stað í vörninni, var mætt aftur á völlinn í dag þegar liðið mætti botnliðinu Lamia á útivelli. Fyrir leikinn var Panathinaikos í þriðja sætinu en gat með sigri jafnað AEK að stigum í öðru sæti en Olympiacos er efst tveimur stigum þar á undan.

Sverrir og félagar lentu hins vegar í brasi í leiknum í dag. Lamia tók forystuna strax á 4. mínútu en Filip Djuricic jafnaði metin fyrir Panathinaikos á 72. mínútu og útlit fyrir spennandi lokakafla. Heimaliðið náði hins vegar forystunni á ný aðeins sex mínútum síðar og bættu þriðja markinu við undir lokin.

Lokatölur 3-1 fyrir Lamia sem enn er þó eitt í botnsætinu en Panathinaikos er áfram í þriðja sæti en varð af mikilvægum stigum í toppbaráttunni. Sverrir Ingi lék allan leikinn í miðri vörn Panathinaikos í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×