Innlent

Kjarnorkukafbátur í Eyja­firði

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Þjónustuheimsókn USS Delaware var sjötta þjónustuheimsókn kjarnorkuknúins kafbáts frá bandaríska sjóhernum í íslenska landhelgi frá árinu 2023.
Þjónustuheimsókn USS Delaware var sjötta þjónustuheimsókn kjarnorkuknúins kafbáts frá bandaríska sjóhernum í íslenska landhelgi frá árinu 2023. LAndhelgisgæslan

Kjarnorkuknúinn bandarískur kafbátur, USS Delaware, verður í stuttri þjónustuheimsókn í íslensku landhelginni í dag. Báturinn er orrustukafbátur af Virginia-gerð og slíkir kafbátar bera ekki kjarnavopn.

Þetta er í sjötta sinn sem kjarnorkuknúinn kafbátur bandaríska sjóhersins kemur í þjónustuheimsókn í íslenska landhelgi eða frá því að utanríkisráðherra tilkynnti 18. apríl 2023 að slíkum kafbátum yrði heimilað að hafa stutta viðkomu úti fyrir ströndum Íslands til að taka kost og skipta út hluta áhafnar.

Varðskipið Freyja fylgdi bátnum um landhelgina og í utanverðan Eyjaförð, þar sem fram fóru áhafnaskipti og önnur þjónusta. Landhelgisgæslan leiðir framkvæmd heimsóknarinnar í nánu samstarfi við embætti ríkislögreglustjóra, Geislavarnir ríkisins og utanríkisráðuneytið í samræmi við settar verklagsreglur.

Fram kemur í tilkynningu stjórnarráðsins að þjónustuheimsóknirnar séu liður í varnarskuldbindingum Íslands og séu mikilvægt framlag til sameiginlegra varna Atlantshafsbandalagsins.

„Framkvæmd þeirra hér við land gerir bandamönnum okkar kleift að tryggja samfellu í eftirliti, stytta viðbragðstíma og senda skilaboð um viðveru og varnir á Norður-Atlantshafi.“

Kafbátar bandalagsríkja og kafbátaleitarvélar, sem meðal annars séu gerðar út frá Keflavíkurflugvelli, gegni mikilvægu hlutverki við eftirlit og stöðuvitund á Norður-Atlantshafi og stuðli þannig að auknu öryggi bandalagsríkja, þar á meðal hafsvæðinu í Kringum Ísland.

Hægt er að lesa meira um þjónustuheimsóknir bandarískra kafbáta á síðu stjórnarráðsins.

Varðskipið Freyja fylgdi kafbátnum í utanverðan Eyjafjörð.Landhelgisgæslan
Áhafnaskipti.Landhelgisgæslan
Fylgst með úr stjórnklefa Freyju.Landhelgisgæslan
Freyja, varðskip Landhelgisgæslunnar.Landhelgisgæslan



Fleiri fréttir

Sjá meira


×