Erlent

Yfir 50 látist af völdum ó­þekktra veikinda í Austur-Kongó

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Unnið er að því að greina um hvaða sjúkdóm er að ræða.
Unnið er að því að greina um hvaða sjúkdóm er að ræða. Getty

Fleiri en 50 hafa látist af völdum óþekktra veikinda í norðvesturhluta Austur-Kongó. Veikindanna varð fyrst vart hjá þremur börnum sem höfðu borðað dauða leðurblöku.

Þau voru öll undir fimm ára og létust í kjölfar einkenna á borð við hita, orkuleysi og blóðug uppköst.

Samkvæmt Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni hafa 431 greinst og 53 látist í tveimur þorpum. Ekki hafa fundist tengsl á milli veikindanna í þorpunum tveimur. 

Búið er að útiloka að veikindin séu af völdum Ebólu eða Marburg-veirunnar.

Tarik Jašarević, talsmaður WHO, sagði á blaðamannafundi í gær að um væri að ræða umtalsverða ógn en tilfellum hefur fjölgað nokkuð hratt frá því að veikindin brutust út í janúar.

Teymi eru á vettvangi að rannsaka hvort um er að ræða sjúkdóma eða mögulega eitrun. Aðrir sjúkdómar sem koma til greina eru malaría, taugaveiki eða heilahimnubólga.

Veikindi sem brutust út annars staðar í Austur-Kongó í desember síðastliðnum reyndust af völdum malaríiu.

Guardian greindi frá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×