Skoðun

Létt­leiki og lýð­ræði – kjósum Höllu sem for­mann VR

Björg Gilsdóttir skrifar

Í þessari viku ganga VR-ingar að kjörborðinu og velja sér forystu til næstu fjögurra ára. Að vísu þarf enginn að ganga neitt, enda er kosningin rafræn og því afar auðvelt að taka þátt! Ég hef verið félagi í VR í áratugi og verið virk í starfi félagsins, bæði sem trúnaðarmaður á mínum vinnustað og sem meðlimur í trúnaðarráði. Ég get því vottað að sú orka sem Halla Gunnarsdóttir hefur komið með inn í félagið er bæði eftirtektar- og aðdáunarverð. Hún hefur látið til sín taka í stórum málum sem smáum og það vafðist ekki fyrir henni að kasta öllu sínu til hliðar til að taka við embætti formanns þegar forveri hennar tók sæti á Alþingi. Nú, aðeins örfáum mánuðum síðar, stendur hún frammi fyrir kosningu um embættið og mér finnst rétt að hvetja alla VR félaga til að veita henni brautargengi.

Halla stýrir fundum trúnaðarráðs bæði á mjög lýðræðislegan hátt og af miklum léttleika. Hún er lausnamiðuð og augljóst að hún hefur ekki mikið þol fyrir málalengingum og veseni. Hún hefur ítrekað sýnt að hún brennur fyrir hagsmunum VR-félaga og mun leggja sig alla fram í baráttunni fyrir okkar kjörum, ásamt því að standa vörð um og efla þjónustu félagsins.

Ég treysti Höllu 100% til að leiða VR og hvet alla félaga til að gefa henni sitt atkvæði! Áfram Halla og áfram VR!

Höfundur er félagi í trúnaðarráði VR.




Skoðun

Sjá meira


×