Innlent

Manndrápsrannsóknin: Myndin að verða „skýrari og skýrari“

Jón Þór Stefánsson og Margrét Helga Erlingsdóttir skrifa
Þrír hafa verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald.
Þrír hafa verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald.

„Rannsóknin er enn á frumstigi. Það er mikil gagnaöflun í gangi og mikið um skýrslutökur. En í þeirri vinnu er að verða skýrari og skýrari mynd. En ég tek aftur fram að við erum á frumstigi,“ segir Jón Gunnar Þórhallsson yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi um rannsókn á manndrápi.

Líkt og greint hefur verið frá fannst maður á sjötugsaldri þungt haldinn á göngustíg í Gufunesi snemma á þriðjudagsmorgun og lést samkvæmt tilkynningu lögreglunnar stuttu eftir komu á spítala.

Lögregla hóf leit að manninum kvöldið áður eftir að þeim hafði verið tilkynnt að hann hefði horfið af heimili sínu og óttast væri um hann. Samkvæmt tilkynningu grunaði lögreglu snemma að um frelsissviptingu væri að ræða.

Héraðsdómur Suðurlands hefur fallist á kröfu lögreglunnar um að þrír verði úrskurðaðir í gæsluvarðhald vegna málsins. Alls hefur verið greint frá átta handtökum. Þeim fimm, sem ekki var krafist að yrðu úrskurðaðir í gæsluvarðhald, hefur verið sleppt úr haldi.

Að minnsta kosti einn gæsluvarðhaldsúrskurðurinn hefur verið kærður til Landsréttar.

Í kvöldfréttum Rúv í gær kom fram að eins manns væri enn leitað vegna rannsóknarinnar. Jón Gunnar fékkst ekki til að staðfesta það. Heimildir fréttastofu herma að eins sé sannarlega leitað, en sá sé ekki talinn vera höfuðpaur í málinu.

Jón Gunnar segir að á meðal þeirra atriða sem verið er að rannsaka sé fjárkúgun.

„Eins og ég sagði er að koma ákveðin sýn á þetta, en ég get ekki farið nánar út í það.“

Hann segir að í svona málum sé yfirleitt lagt hald á muni, en á hvað hafi verið lagt hald á geti hann ekki farið útí að svo stöddu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×