Upp­gjörið: Keflavík-Stjarnan 107-98 | Kefl­víkingar eiga enn von

Stefán Marteinn Ólafsson skrifar
Callum Lawson var mjög öflugur fyrir Keflavíkurliðið í kvöld.
Callum Lawson var mjög öflugur fyrir Keflavíkurliðið í kvöld. Vísir/Hulda Margrét

Keflvíkingar héldu voninni um sæti í úrslitakeppninni á lífi eftir níu stiga sigur á Stjörnunni, 107-98, í Bónus deild karla í körfubolta í kvöld.

Keflvíkingar byrjuðu frábærlega og komust mest 21 stigi yfir en Stjörnumenn komu til baka í seinni hálfleiknum. Keflavíkurliðið hélt út og getur því enn komist í úrslitakeppnin með sigri á Þór í Þorlákshöfn og hagstæðum úrslitum í lokaumferðinni.

Stjörnumönnum mistókst aftur á móti að komast upp fyrir Stólana og í toppsæti deildarinnar.

Keflavík mætti til leiks af fullum krafti og það var ljóst mjög snemma að það var gríðarlega góður andi í heimamönnum. Þeir settu tóninn snemma fyrir það sem koma skyldi.

Keflavík náði strax forystu sem þeir létu ekki af hendi. Stuðningsmenn Keflavíkur létu vel í sér heyra og það var auðsjáanlegt hvað það gaf heimamönnum mikið. Þeir leiddu sannfærandi 17-11 eftir fyrsta leikhluta.

Stjarnan átti fá svör við því sem Keflavík var að gera og í öðrum leikhluta náði Keflavík mest 21 stiga forskoti. Eftir því sem leið á annan leikhluta náði Stjarnan þó hægt og rólega að vinna sig til baka en voru komnir í heldur bratta brekku. Þegar liðin gengu til hálfleiks var staðan 61-48 fyrir Keflavík.

Það var mikið jafnræði með liðunum í þriðja leikhluta. Stjörnumenn mættu sterkir út úr hálfleiknum og náðu fínum köflum en komst þó aldrei nálægt Keflavík. Heimamenn leiddu eftir þriðja leikhluta 84-69.

Stjarnan hótaði endurkomu í fjórða leikhluta og náðu að minnka forskot Keflavíkur niður í fimm stig. Það kom smá ókyrrð í lið heimamanna en þeir náðu að hrista það af sér og sækja öruggan sigur að lokum 107-98.

Atvik leiksins

Remu Emil Raitanen skilaði erfiðu skoti ofan í þegar það var komin smá taugastrekkja í Keflavík þegar leið á fjórða leikhluta og það kveikti í kofanum til þess að keyra Keflavík aftur í gang. Eftir það tóku Keflvíkingar aftur völdin í eigin hendur.

Stjörnur og skúrkar

Callum Lawson var frábær í liði Keflavíkur í dag og skoraði 28 stig. Ty-Shon Alexander var þá einnig öflugur og hann var með 26 stig. Sterkt fyrir Keflavík ef þeir ætla að fara trekkjast í gang að alvöru.

Orri Gunnarsson vill sennilega gleyma þessum leik bara sem fyrst en þetta var ekki alveg hans dagur í dag.

Dómararnir

Eins og gengur og gerist í þessu sporti eru menn ekki alltaf sammála öllu sem gerist á vellinum en fyrir mína parta var þetta bara þokkalega vel dæmdur leikur.

Stemingin og umgjörð

Umgjörðin hérna í Blue höllinni er ávallt til fyrirmyndar. Stuðningsmenn Keflavíkur létu vel í sér heyra og það skilaði sér án nokkurs vafa inn á völlinn til heimamanna.

Viðtöl

Sigurður Ingimundarson segir sínum mönnum til.Vísir/Hulda Margrét

„Þetta var orðið svolítið súrt hjá okkur en þetta breytir ýmsu“

„Þetta var sterkur sigur og fyrir okkur persónulega að sýna okkur sjálfum að liðið okkar er mjög gott,“ Sagði Sigurður Ingimundarson þjálfari Keflavíkur eftir leikinn í kvöld.

Keflavík átti ekki góðan leik fyrir norðan í síðustu umferð en svöruðu þeirri frammistöðu með hörku frammistöðu í kvöld.

„Það er bara þvílíkt mikilvægt, þetta var orðið svolítið súrt hjá okkur en þetta breytir ýmsu,“

Sigurður Ingimundarson var svaraði því játandi þegar hann var spurður hvort þetta hafi verið besti leikurinn undir hans stjórn frá því hann tók við aftur.

„Já ég held ég geti fullyrt það. Þeir eru nú ekkert margir búnir að vera frábærir en við erum á ágætis leið, spurning hvort það sé nokkuð of seint? Ég veit það ekki en við spáum ekkert í það í kvöld og þetta er gott veganesti fyrir okkur inn í bikar vikuna“

Keflavík mætir Val í undanúrslitum í Vís bikarnum og gaf þessi sigur þeim mikið farandi inn í bikar vikuna.

„þetta er óneitanlega skemmtilegra að fara með svona sigur inn í þá viku“ sagði Sigurður Ingimundarson.

Baldur Þór Ragnarsson, þjálfari Stjörnunnar, talar við liðið sitt í leik kvöldsinsVísir/Pawel Cieslikiewicz

„Þurfum að vera betri varnarlega“

„Ekki nægilega góður leikur af okkar hálfu og Keflavík gerðu vel,“ sagði Baldur Þór Ragnarsson þjálfari Stjörnunnar eftir tapið í kvöld.

„Fyrri hálfleikurinn er bara alltof lélegur varnarlega og þeir keyra bara í beinni línu framhjá okkur í sniðskot trekk í trekk. Það er ekki vænlegt til árangurs,“

Stjarnan gat með sigri í kvöld komið sér í bílstjórasætið um deildarmeistaratitilinn en náðu ekki að nýta sér það. Baldur vildi þó ekki gefa mikið fyrir eitthvað áhyggjuefni að hafa ekki náð að vinna þó bílstjórasætið var undir.

„Áhyggjuefni og ekki áhyggjuefni. Þetta eru bara allt hörku leikir núna og mikið að vinnast bara heima og við töpuðum. Áhyggjuefnið er bara að við þurfum að vera betri varnarlega en þetta og það er bara svoleiðis,“

Stjarnan eru á leið inn í bikarviku þar sem þeir eru í undanúrslitum Vís bikarsins.

„Við þurfum bara að fara yfir þennan leik og taka lærdóm og vera betri í næsta leik“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira