Búðarhnupl hefur verið vandamál nánast frá því að verslun hófst. Fólk freistast til þess að smella einum hlut í vasann, eða skipuleggur aðgerðina vandlega, og gengur út með heilmikil verðmæti án þess að borga. Í fyrra varð mikil aukning í búðarhnupli á Íslandi.
Frá 2015 til 2024 var fjöldi þjófnaða nokkuð stöðugur, tæplega fjögur þúsund tilvik á ári. Fjöldi tilkynninga um búðarhnupl hefur einnig verið á svipuðu róli, að jafnaði rúmlega 900 tilvik á ári. Í fyrra rauk sú tala hins vegar upp og tilkynnt var um búðarhnupl tæplega 1.500 sinnum. Sjötíu prósent aukning á einu ári. Hlutfall búðarhnupls af þjófnaðarmálum fór úr 23 prósentum í 38 prósent.
Björgvin Víkingsson, framkvæmdastjóri Bónuss, segist hafa tekið eftir aukningunni. Brugðist sé stanslaust við þessari þróun.
„Við verðum að gera það. Það væri ekki gott mót hjá okkur ef við myndum ekki reyna að bregðast við þessu,“ segir Björgvin.
Og þjófarnir þeir gera kannski slíkt hið sama, þeir reyna alltaf nýjar aðferðir?
„Það er allt reynt. Það er ótrúlegt. Við vitum um tug aðferða sem eru notaðar til að reyna að stela. Við kennum okkar starfsfólki að sjá í gegnum það, því þetta er oft sama hegðunin.“
Hann telur sjálfsafgreiðslunýjungar í verslunum ekki skýra aukinn þjófnað.
„Þau bara komið til að hjálpa okkur. Sjálfsafgreiðslukerfið getur myndgreint vörurnar sem eru á kassanum. Það er líka hægt með gripið og greitt, það er alltaf hægt að sjá gögnin. Þetta hjálpar okkur,“ segir Björgvin.
Þjófarnir stefni oftast á dýrustu vörurnar, það er kjöt og snyrtivörur.
„Þetta er mjög mikið skipulagt. Það er það sem við erum helst að reyna að berjast við. Það er að sjá hegðunina í kringum þessi brot og þannig kenna okkar fólki og nýtt kerfin til þess að taka á móti þessu,“ segir Björgvin.