Erlent

Níu mánaða geim­ferð sem átti að taka átta daga lýkur

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá geimskotinu í gærkvöldi.
Frá geimskotinu í gærkvöldi. SpaceX

Starfsmenn Geimvísindastofnunar Bandaríkjanna og SpaceX skutu í gærkvöldi fjórum geimförum af stað til Alþjóðlegu geimstöðvarinnar, þar sem þeir eiga að leysa af hólmi tvo geimfara sem verið nokkurs konar strandaglóðar í geimstöðinni í níu mánuði.

Geimfararnir fjórir sem sendir voru út í geim í gær, þau Anne McClain og Nichole Ayers frá Bandaríkjunum, Takuya Onishi frá Japan og Kirill Peskov, frá Rússlandi, eru nú á braut um jörðu um borð í Dragon geimfari SpaceX og eiga að tengjast geimstöðinni í kvöld.

Það mun gera þeim Butch Wilmore og Suni Williams kleift að snúa aftur til jarðar á næstunni.

Wilmore og Williams hafa verið strandaglópar í geimstöðinni í um níu mánuði en upprunalega átti geimferð þeirra einungis að taka átta daga. Þeim var skotið til geimstöðvarinnar um borð í Starliner geimfarið Boeing í júní en nokkrar bilanir áttu sér stað um borð í geimfarinu og var það því sent tómt aftur til jarðarinnar í september.

Tæknilega séð hefur enginn verið fastur um borð í geimstöðinni þar sem þar hefur alltaf verið geimfar fyrir geimfarana til að nota í neyðartilfellum. Í september voru svo sendir tveir geimfarar til geimstöðvarinnar og eiga þeir að snúa aftur með Wilmore og Williams í næstu viku.

Kallaði danskan geimfara „þroskaheftan“

Donald Trump, forseti, og Elon Musk, eigandi SpaceX, hafa notað ævintýri Wilmore og Williams í pólitískum tilgangi og skammast yfir því að þeim hafi ekki verið komið heim fyrr.

Þegar Musk hélt því fram í síðasta mánuði að ríkisstjórn Joes Biden hefði haldið þeim í geimnum af pólitískum ástæðum mótmælti danskur geimfari sem hefur tvisvar sinnum farið til geimstöðvarinnar því og benti á að löngu væri ákveðið að þau myndu snúa aftur með geimfarinu sem sent var í september og að þó Trump hefði verið við völd í meira en mánuð hefðu þeir ekki sent geimfar til að sækja þau.

Því svaraði Musk með því að kalla Andreas Mogensen, danska geimfarann, „þroskaheftan“.

Geimfararnir fjórir sem lögðu af stað til geimstöðvarinnar í gær.AFP/Gregg Newton

Eins og fram kemur í grein AP fréttaveitunnar hafa þau Wilmore og Williams ávallt sagt að þau styðji þær ákvarðanir sem hafa verið teknar um veru þeirra í geimnum. Þau hafa bæði búið áður í geimstöðinni og hafa á undanförnum mánuðum unnið við viðgerðir og vísindastörf, svo eitthvað sé nefnt.

Williams fór í geimgöngu og varð þar með sú kona sem farið hefur í flestar geimgöngur, alls níu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×