Keir Starmer kallaði saman 25 leiðtoga á fjarfund í morgun til að ræða mögulegar ráðstafanir vopnahlés í Úkraínu. Að fundinum loknum sagði hann við blaðamenn að Pútín væri tefja frið og að fyrr eða síðar muni hann þurfa að setjast við samningaborðið.
Nýjar skuldbindingar
Fundurinn fór fram í gegnum fjarfundarbúnað og tóku ýmsir leiðtogar hins svokallaða „bandalags hinna viljugu“ þátt, þar á meðal Kanada, Úkraína, Nýja-Sjáland og margar Atlantshafsbandalagsþjóðir. Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra sat fundinn. Á fundinum tóku til máls Starmer, Emmanuel Macron Frakklandsforseti, Vólódímír Selenskí Úkraínuforseti og Mark Rutte framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins.
Við blaðamenn sagði Starmer að á fundinum hefði náðst samkomulag um „nýjar skuldbindingar“ en tók þó ekki fram hvað fælist í þeim. Hann sagði tímann til kominn til að ræða hvernig hægt sé að tryggja að friðurinn verði varanlegur.
„Við munum ekki standa hjá og bíða eftir því að Pútín bregðist við. Í staðinn munum við halda áfram að ná árangri,“ sagði Starmer.
Pútín setti vopnahlé hörð skilyrði
Hann sagði að sammælst hefði verið um það að beita Rússa hámarksþrýstingi, halda áfram að styrkja varnir Úkraínu og beita Rússa frekari efnahagsþvingunum. Herforingjar muni hittast á fimmtudaginn kemur til að stilla saman strengi.
Úkraínsk stjórnvöld hafa þegar samþykkt tillögu um þrjátíu daga vopnahlé en Pútín setti vopnahlé ansi þröngar skorður. Úkraínumenn mættu til að mynda ekki nota vopnahléð til að styrkja varnir sínar, þjálfa menn sína eða fá ný hergögn á tímabilinu.
„Vólódímír hefur skuldbundið sig þrjátíu daga vopnahléi án skilyrða, en Pútín er að reyna að tefja og segir að það þurfi að fara fram ítarleg rannsókn áður en til vopnahlés kemur. Heimurinn þarfnast þess að brugðist sé við, ekki rannsókn, ekki innantóm orð og skilyrði,“ sagði Starmer.