Körfubolti

Fyrsta tap Cavs síðan fjórða febrúar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Paolo Banchero var atkvæðamestur hjá Orlando Magic í sigrinum á Cleveland Cavaliers.
Paolo Banchero var atkvæðamestur hjá Orlando Magic í sigrinum á Cleveland Cavaliers. ap/Sue Ogrocki

Eftir að hafa unnið sextán leiki í röð tapaði Cleveland Cavaliers loks þegar Orlando Magic mætti í heimsókn í NBA-deildinni í körfubolta í nótt. Lokatölur 103-108, Orlando í vil.

Cleveland hefur átt frábært tímabil og er með besta árangurinn í NBA; 56 sigra og ellefu töp. Fyrir leikinn gegn Orlando í nótt hafði Cleveland unnið sextán leiki í röð og ekki tapað síðan gegn meisturum Boston Celtics 4. febrúar.

Cavs var í góðri stöðu í hálfleik enda með þrettán stiga forskot, 60-47. Magic sneri dæminu við í seinni hálfleik og vann fimm stiga sigur, 103-108.

Cleveland fékk svo sannarlega tækifæri undir lokin en á síðustu mínútu leiksins klikkaði liðið á fimm skotum, þar af Donovan Mitchell á þremur.

Paolo Banchero skoraði 24 stig, tók ellefu fráköst og gaf sjö stoðsendingar fyrir Magic sem er í 8. sæti Austurdeildarinnar með 32 sigra og 37 töp. Franz Wagner skoraði 22 stig og tók átta fráköst.

Mitchell var stigahæstur hjá Cavs með 23 stig og Jarrett Allen skoraði tuttugu stig og tók tólf fráköst.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×