Í kvörtun sinni halda Alþýðusamband Íslands, Starfsgreinasambandið og Efling því fram að Virðing sé í raun undir stjórn veitingafyrirtækja og samningur félagsins við SVEIT feli þannig í sér samráð um launakjör sem sé brot á samkeppnislögum.
Kjarasamningur Virðingar og SVEIT hafi þannig ekki verið raunverulegur kjarsamningur heldur einhliða ákvörðun atvinnurekenda. Hann skerði réttindi og kjör launafólks.
Forsvarsmenn Eflingar og SVEIT hafa átt í hörðum orðaskiptum undanfarin misseri allt frá því að stéttarfélagi varaði við Virðingu og nefndi það gervistéttarfélag í desember. Framkvæmdastjóri SVEIT vísaði því á bug að samtökin tengdust Virðingu á nokkurn hátt.
Efling birti síðar lista yfir fimm veitingastaði sem félagið sagði standa að baki kjarasamningi Virðingar við SVEIT. Þar á meðal voru Subway, Hard Rock Cafe og fleiri staðir.
Í tilkynningu ASÍ, SGS og Eflingar nú er því haldið fram að Virðing sé ekki raunverulegt stéttarfélag heldur framlenging á hagsmunum atvinnurekenda. Það veiti enga þjónustu og hafi engar samskiptaupplýsingar á heimasíðu sinni auk þess sem kjarasamningur Virðingar við SVEIT skerði kjör og réttindi launafólks. Stofnendur og stjórnarmenn Virðingar séu allir annað hvort veitingamenn sjálfir eða bundnir veitingamönnum nánum böndum.