Erlent

Dauða fiska og froðu rak á land í Ástralíu

Samúel Karl Ólason skrifar
Mikil froða á Waitpinga-strönd í Ástralíu.
Mikil froða á Waitpinga-strönd í Ástralíu. AP/ABC

Tveimur baðströndum var lokað í Suður-Ástralíu í gær eftir að dauða fiska og torkennilega froðu rak þar á land. Brimbrettakappar og sundmenn á svæðinu fundu einnig fyrir slappleika eftir að hafa verið í sjónum en sérfræðingar telja sjaldgæfa þörungamyndun um að kenna.

Ströndunum, sem eru á Fleurieu-skaga var lokað í gær en þá hafði mikill fjöldi dauðra fiska og kolkrabba rekið á landi. Nokkrir leituðu einnig til læknis um og eftir helgi vegna viðkvæmra auga, hósta og slæmrar sjónar eftir að hafa heimsótt baðstrendurnar.

Ríkisútvarp Ástralíu hefur eftir sérfræðingum frá Umhverfisstofnun landsins að talið sé að þörungamyndun sé um að kenna. Það hafi þó ekki verið staðfest enn.

Fólk hefur leitað til læknis eftir að hafa farið í sjóinn.AP/ABC

Undanfarið hefur verið töluvert heitara á svæðinu en gengur og gerist á þessum tíma, auk þess sem vindur hefur verið lítill og lágstreymt. Þessar aðstæður þykja kjörnar fyrir þörungamyndun.

„Á þessum árstíma sjáum við einangruð tilvik þörungamyndunar en myndun á þessum skala er mjög sjaldgæf,“ hefur ABC eftir einum sérfræðingi. Vindur og þar með öldugangur hefur aukist á síðustu tveimur dögum og hefur það brotið niður þörungana, með tilheyrandi froðu.

Vísindamenn vonast því til þess að ástandið sé yfirstaðið en það þykir ekki öruggt.

Búið er að safna sýnum á svæðinu en mun það taka um viku að rannsaka þau og komast til botns í málinu og finna út hvers konar þörunga um er að ræða, ef þær getgátur reynast réttar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×