Skoðun

Samorka – Sterk sam­tök í 30 ár

Finnur Beck skrifar

Árið 2025 markar tímamót fyrir Samorku, samtök orku- og veitufyrirtækja á Íslandi, því á árinu fagna þau 30 ára afmæli. Samorka hefur gegnt lykilhlutverki í að tryggja að orku- og veitugeirinn á Íslandi eigi sér sterkan málsvara í samtali við stjórnvöld og samfélag. Þessi þátttaka er mikilvægari en nokkru sinni fyrr í ljósi þeirra áskorana sem íslenskt samfélag og orku- og veitugeirinn stendur frammi fyrir.

Orku- og veitugeirinn er burðarás í íslensku samfélagi, ekki aðeins vegna þess að hann tryggir sjálfbæra og hreina orku, heldur einnig vegna þess að hann styður við markmið Íslands um kolefnishlutleysi árið 2040. Í orku- og veitufyrirtækjum starfa landsins bestu sérfræðingar á sínum sviðum sem vinna ötullega að því að endurnýja, uppfæra og þróa nýja orku- og veituinniviði sem skapa lífsgæði og leggja grunn að nýrri verðmætasköpun. Samorka hefur verið leiðandi í að miðla tæknilegri þekkingu fyrirtækja í geiranum og skapa vettvang fyrir stefnumótandi umræðu um framtíð orku- og veitukerfa landsins.

Umfangsmiklar fjárfestingar

Í tilefni af afmælinu verður í dag haldinn opinn ársfundur í Hörpu, þar sem áhersla verður lögð á framtíðarsýn og áskoranir orku- og veitugeirans. Á fundinum verða kynntar tölur um fyrirhugaðar fjárfestingar orku- og veitufyrirtækja næstu 5 árin. Meðal dagskrárliða verða erindi frá lykilfólki í geiranum, pallborðsumræður og tækifæri til að fagna þessum tímamótum með léttum veitingum og tónlist. Fundinum verður streymt beint á heimasíðu Samorku, samorka.is.

Græn framtíð

Á stórum tímamótum er mikilvægt að líta til framtíðar. Samorka mun halda áfram að vinna að því að stuðla að skilvirkri stjórnsýsluumgjörð um orku- og veituinnviði, stuðla að nýsköpun og menntun á starfssviðum aðildarfélaga og vinna að því að Ísland verði áfram leiðandi og fyrirmynd annarra þjóða í nýtingu grænnar orku, knúið og kynt með grænni orku sem unnin er meðsjálfbærum og ábyrgum hætti innanlands.

Höfundur er framkvæmdastjóri Samorku.




Skoðun

Sjá meira


×