„Hermann Austmar er hetja. Það þarf kjark til að koma fram og gagnrýna skóla barnanna sinna. Skólar eiga að vera griðastaður barna ekki vettvangur daglegs ofbeldis árum saman,“ sagði Jón Pétur í störfum þingsins í dag.
Hermann Austmar, faðir stúlku í Breiðholtsskóla, hefur stigið fram í fjölmiðlum og lýst gífurlegum ofbeldisvanda sem hefur þrifist í skólanum. Hann segir ógnarstjórnun ráða þar ríkjum, og talar um að fámennur hópur ráði ríkjum, og börn hafi orðið fyrir andlegu, líkamlegu, og kynferðislegu ofbeldi.
Embættis- og stjórnmálamenn kasti heitu kartöflunni frá sér
„Nú höfum við embættismenn, stjórnmálamenn og ráðherra á góðum launum sem á góðviðrisdögum belgja sig út og tala fjálglega um börn og ungmenni, að þau eigi skilið það besta og að hlusta eigi á þau,“ segir Jón Pétur.
„Svo koma erfið mál. Þá sér maður undir iljarnar á sama fólki og þau sem enda með heitu kartöfluna kasta henni umsvifalaust frá sér, bara eitthvað annað. Það hefur verið ömurlegt að fylgjast með málinu í Breiðholti síðastliðnar vikur.“
Jón segir að slík mál spretti ekki upp úr tómarúmi. Jarðvegur þurfi að vera til staðar, og það þurfi góðan tíma fyrir svona ástand að gerjast og myndast.
„Börn, foreldrar og starfsmenn skólans hafa beinlínis öskrað á hjálp með gerðum sínum og tali Fullorðna fólkið á góðu laununum yppir bara öxlum og sendir boltann á næsta mann. Og ráðherrann horfir bara á.“
„Á meðan þjást fjölskyldur í Bökkunum. Þetta er prófmál á það hvernig við sem samfélag tökum á málum sem þessum.“