Enski boltinn

Liver­pool-goðsögnin Han­sen fékk MBE orðu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Hansen og orðan.
Hansen og orðan. Vísir/Getty Images

Alan Hansen var á sínum tími máttarstólpi í gríðarlega sigursælu Liverpool-liði. Í seinni tíð var hann þekktur sem maðurinn sem sagði „þú vinnur ekkert með krakka í liðinu.“ Hann hefur nú hlotið MBE-orðuna fyrir störf sín.

Hinn 69 ára gamli Skoti lék á sínum tíma 26 A-landsleiki fyrir Skotland og spilaði þá vel yfir 600 leiki fyrir gríðarlega sigursælt lið Liverpool frá 1977 til 1991. Liðið vann efstu deild á Englandi átta sinnum, þrisvar varð liðið Evrópumeistari og tvívegis enskur bikarmeistari.

Eftir að skórnir fóru á hilluna hefur Hansen verið gríðarlega vinsæll sparkspekingur. Var hann lengi vel sérfræðingur hins gríðarlega vinsæla Match of the Day sem sýndur var öll laugardagskvöld á stöð breska ríkisútvarpsins, BBC.

Það var þar sem hann lét þau orð falla að Manchester United myndi ekki vinna nokkurn skapaðan hlut með krakka í liðinu. Téðir krakkar voru hin frægi 1992-árgangur en með hjálp nokkurra eldri leikmanna áttu blessaðir krakkarnir eftir að vinna allt galleríið.

Hansen veiktist illa á síðasta ári en hefur nú náð sér og var mættur í Windsor-kastalann á þriðjudag til að fá MBE-orðuna fyrir störf sín í kringum fótbolta og umfjöllun tengdri íþróttinni.

MBE stendur fyrir Member of the Order of the British Empire og er gefin þeim sem hafa skarað fram úr á hinum ýmsu sviðum. Hún var fyrst gefin út árið 1917.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×