Þremenningarnir voru þeir fyrstu sem handteknir voru í tengslum við málið og hafa nú þegar setið í gæsluvarðhaldi í viku.
Þá var staðfestur úrskurður um að kona, sem handtekin var í gærkvöldi, sæti varðhaldi í eina viku. Hún er sjöundi meinti sakborningurinn í málinu, sem rannsakað er sem hugsanlegt manndráp, frelsissvipting og fjárkúgun.
Sjá einnig: Handtóku einn til viðbótar
Sjö sitja því í gæsluvarðhaldi sem stendur, en ekki hefur verið tekin ávörðun um hvort farið verði fram á lengra gæsluvarðhald yfir fleirum, að sögn Jóns Gunnars Þórhallssonar, yfirlögregluþjóns á Suðurlandi.
Réttarkrufning, skýrslutökur og önnur rannsóknarvinna
Rannsókninni miðar ágætlega, að sögn Jóns Gunnars. Réttarkrufning fer fram á hinum látna, karlmanni á sjötugsaldri, samhliða rannsókn á gögnum málsins málsins. Einnig fari skýrslutökur fram daglega, ýmist af vitnum eða sakborningum.
Jón Gunnar segir jafnframt að magn gagna sé mikið, um sé að ræða meðal annars vitnaskýrslur, myndbönd og annað sem til rannsóknar sé.
Mikil vinna sé í gangi á mörgum stöðum, en lögreglustjórinn á Suðurlandi hefur notið aðstoðar frá embættum ríkislögreglustjóra, lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu og héraðssaksóknara.