Körfubolti

„Það er ekkert gefið og þú verður að vinna fyrir öllu“

Stefán Marteinn Ólafsson skrifar
Brittany Dinkins , Isabella Ask Sigurðardóttir
Brittany Dinkins , Isabella Ask Sigurðardóttir Ernir Eyjólfsson/Vísir

Brittany Dinkins var valinn verðmætasti leikmaður bikarkeppninnar í dag þegar Njarðvík hafði betur gegn Grindavík 81-74 og tryggði sér VÍS bikar kvenna.

„Tilfinningin er frábær. Þjálfarinn sagði við okkur fyrir leik að við höfum ekki unnið neitt svo að koma hér og klára þetta var frábært og bæta þessum í bikarskápinn,“ sagði Brittany Dinkins eftir sigur Njarðvíkur í dag.

„Það er ekkert er gefið og þú verður að vinna fyrir öllu. Liðið okkar er mjög ungt en hvernig þessar stelpur hafa verið að stíga upp og verið að taka ráðleggingum og verða betri. Það er núna þeirra að njóta augnabliksins og njóta.“

Njarðvík leiddi lengst af leiknum en Grindavík átti frábæra endurkomu um miðbik þriðja leikhluta og hleypti leiknum upp í svakalega spennu. Brittany var sammála

„Körfubolti er mikið upp og niður. Ég veit þær eru í níunda sæti í deildinni og við í öðru en það skiptir engu máli þegar þú ert í bikarnum. Þær mættu okkur og spiluðu vel. Ég tek ofan fyrir Grindavík, þær eru með gott lið, gefa ekkert eftir og hræðast engan,“ sagði Brittany.

Hún var valinn verðmætasti leikmaður leiksins [MVP] en hún var með þrefalda tvennu; 31 stig, tíu fráköst og tíu stoðsendingar.

„Ég vissi ekki að ég væri með þrefalda tvennu þar til teymið sagði mér það. Það er mikill heiður og ég þakka bara guði fyrir að geta gert þetta. Hafa þetta vopnabúr og hæfileika til að spila þennan fallega leik sem ég elska. Það er samt frábært að ná þessu og vita til þess að það hjálpaði liðinu,“ sagði Brittany.

Aðspurð út í það hvort þetta væri bara byrjunin á einhverju stærra í Njarðvík var Brittany ekki í vafa með það.

„Auðvitað. Þetta er nýr dagur,“ sagði leikstjórnandinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×