Ísland tapaði 2-1 fyrir Kósovó í Pristína á fimmtudaginn. Aðeins fimm leikmenn sem byrjuðu þann leik byrja leikinn í Murcia í dag. Þetta eru þeir Hákon Rafn Valdimarsson, Sverrir Ingi Ingason, Ísak Bergmann Jóhannesson, Orri Steinn Óskarsson og Albert Guðmundsson.
Valgeir Lunddal Friðriksson, Stefán Teitur Þórðarson, Willum Þór Willumsson, Arnór Ingvi Traustason, Þórir Jóhann Helgason og Jón Dagur Þorsteinsson koma inn í byrjunarliðið. Aron Einar Gunnarsson, Guðlaugur Victor Pálsson, Logi Tómasson, Mikael Egill Ellertsson, Hákon Arnar Haraldsson og Andri Lucas Guðjohnsen setjast á bekkinn. Hákon glímir við meiðsli.
Gera má ráð fyrir því að Stefán Teitur verði miðvörður við hlið Sverris og Valgeir og Ísak bakverðir. Sá síðastnefndi mun þó eflaust fá eitthvað frjálsræði þegar Íslendingar eru með boltann. Ísak á afmæli í dag en hann er 22 ára. Hann leikur sinn 33. landsleik.
Willum og Jón Dagur eru á köntunum og Arnór Ingvi og Þórir á miðjunni. Fremstir eru svo fyrirliðinn Orri, sem skoraði mark Íslands í fyrri leiknum, og Albert.
Byrjunarlið Íslands
- Markvörður: Hákon Rafn Valdimarsson
- Hægri bakvörður: Valgeir Lunddal Friðriksson
- Miðverðir: Sverrir Ingi Ingason og Stefán Teitur Þórðarson
- Vinstri bakvörður: Ísak Bergmann Jóhannesson
- Hægri kantmaður: Willum Þór Willumsson
- Miðjumenn: Arnór Ingvi Traustason og Þórir Jóhann Helgason
- Vinstri kantmaður: Jón Dagur Þorsteinsson
- Framherjar: Orri Steinn Óskarsson (fyrirliði) og Albert Guðmundsson
Leikur Íslands og Kósovó hefst klukkan 17:00 og verður sýndur í opinni dagskrá á Stöð 2 Sport. Upphitun fyrir leikinn hefst klukkan 16:25.