Í fréttatilkynningu frá Rauða krossinum segir að samið hafi verið við Fastus ehf. um kaupin á bílunum 25 með möguleika á að kaupa aðra 25 til viðbótar. Fjársýsla ríkisins hafi haft umsjón með útboðinu, sem auglýst hafi verið á öllu evrópska efnahagssvæðinu. Bifreiðarnar verði smíðaðar hjá BAUS AT í Póllandi, sem hafi smíðað sjúkrabíla fyrir Rauða krossinn undanfarin ár.
Rauði krossinn haldi utan um sjúkrabílaflota landsins samkvæmt samningi við Sjúkratryggingar Íslands. Í því felist að félagið útvegar og annast innkaup á sjúkrabílum auk þess að reka þá sem og tækjabúnað til sjúkraflutninga.
„Með tilkomu box-bíla er verið að mæta þörf fyrir betra rými og vinnuaðstöðu inni í sjúkrarýminu. Nú verður hægt að sitja báðum megin við sjúkling inni í sjúkrarýminu þannig að aðgengi að sjúklingi verður mun betra meðan á flutningi stendur, ólíkt hefðbundnum sjúkrabílum þar sem rýmið er takmarkaðra,“ er haft eftir Marinó Má Marinóssyni, verkefnastjóra sjúkraflutninga hjá Rauða krossinum.
Kassarnir á box-bílunum séu hannaðir sérstaklega fyrir sjúkraflutninga og skipulag á skápum og hillum í þeim er að sögn Marinós betra og stærra. „Box-bílarnir eru byggðir fyrir mikla notkun og taldir endingarbetri.“
Boxin séu sett saman í einingum og því eigi að vera auðveldara að skipta út eða gera við einstaka hluta, eins og skápa og rafkerfi, án þess að hafa áhrif á aðra hluti í bílnum. „Ég tel þetta mikla framför.“
Gert sé ráð fyrir að nýju bílarnir verði staðsettir á þeim stöðum á landinu þar sem álagið er mest, til dæmis á stóru þéttbýlisstöðunum.
Í dag eigi Rauði krossinn og reki 94 sjúkrabíla, þar af séu 80 í notkun en fjórtán hafðir til vara. Meðalaldur flotans sé nú sex ár.
Stefnt sé að því að fyrstu bílarnir komi til landsins eftir um 18 mánuði.