Baldur skoraði 211 mörk í 22 leikjum fyrir ÍR í Olís-deildinni í vetur. Það gera 9,59 mörk að meðaltali. Það eru tölur sem sjaldan sjást og því lagðist ég í rannsóknarvinnu á því hvort þetta væri met. Í kjölfarið var því slegið fram með örlitlum fyrirvara að Baldur ætti metið yfir flest mörk að meðaltali í leik í efstu deild karla í handbolta á Íslandi.
Það er ekki rétt. Glöggur lesandi benti mér á að Valdimar Grímsson hefði skorað 198 mörk fyrir KA tímabilið 1993-94, eða 9,9 mörk að meðaltali í leik.
Í umfjöllun DV um markahæstu menn tímabilsins kom fram að hann hefði misst af tveimur deildarleikjum með KA tímabilið 1993-94. Hefði hann spilað alla 22 leikina í 1. deild hefði hann ef til vill náð að skora tíu mörk eða meira að meðaltali í leik.

Í dag stakk reynsluboltinn Sigmundur Ó. Steinarsson svo niður penna á handbolta.is og skrifaði grein um markakónga fyrri ára.
Þar bendir hann meðal annars á að Gunnlaugur Hjálmarsson hefði skorað 10,5 mörk að meðaltali fyrir ÍR 1961. Hann spilaði þó aðeins fjóra leiki. Gunnlaugur varð aftur markakóngur árið eftir, þá með 52 mörk í fimm leikjum, eða 10,4 mörk að meðaltali.
Tímabilið 1963 skoraði Ingólfur Óskarsson svo 122 mörk fyrir Fram í tíu leikjum, eða 12,2 mörk að meðaltali í leik.
Vissulega væri þægilegra ef gagnagrunnur HSÍ næði lengra en þrjátíu ár aftur í tímann þannig að upplýsingar um markaskor og annað slíkt væri aðgengilegra. En svo er því miður ekki.
Eftir stendur samt að metið yfir flest mörk í leik að meðaltali á einu tímabili í efstu deild karla í handbolta er ekki í eigu Baldurs. Allavega ekki enn. Það er hér með leiðrétt.