Það var fagnaðarefni fyrir íbúa á höfuðborgarsvæðinu að borgarstjórn Reykjavíkur samþykkti tillögu Þórdísar Lóu Þórhallsdóttur, borgarfulltrúa Viðreisnar um að færa þyrluflug og einkaþotur frá Reykjavíkurflugvelli og að ríkið skyldi hvatt til að standa við samninga um brottflutning einka og kennsluflugs frá vellinum.
Íbúasamtökin Hljóðmörk voru stofnuð á síðasta ári þar sem ónæðið og mengunin sem hefur hlotist af stjórnlausu þyrlu og einkaflugi hefur keyrt um þverbak undanfarin ár. Íbúar á fjölmennasta svæði landsins hafa þurft að súpa seyðið af pólitískum átökum um staðsetningu vallarins og tími er til kominn að því linni.
Krafa Hljóðmarkar hefur frá upphafi verið málefnaleg og í takti við tillögu Viðreisnar. Að á meðan íslensk þjóð hafi ekki bolmagn í að byggja varaflugvöll sem stenst nútímakröfur um mengun og öryggi eigi einungis landhelgisgæslan, sjúkraflug og áætlunarflug innanlands að fara um völlinn. Þessi krafa samræmist fyllilega kröfum íbúa á landsbyggðinni um aðgengi að nútíma heilbrigðisþjónustu á meðan þjóðin hefur ekki bolmagn til að sinna henni víðar en í miðborg Reykjavíkur.
Þeir sem hafa barist harðast fyrir veru vallarins í Vatnsmýrinni hafa réttilega bent á að íbúar á landsbyggðinni verða að hafa aðgengi að heilbrigðisþjónustu. Þeir ættu því að fagna því að öryggi allra íbúa landsins eykst til muna við að færa þyrlur, einkaþotur og kennsluflug frá fjölmennasta svæði landsins. Nema að baráttan um veru Reykjavíkurflugvallar í Vatnsmýri snúist í raun og veru um eitthvað annað en öryggi íbúa á landsbyggðinni? Nú kemur það í ljós.
Höfundar eru meðlimir í íbúasamtökunum Hljóðmörk