Upp­gjörið: Þór/KA - Tinda­stóll 2-1 | Endur­koma í Boganum

Árni Gísli Magnússon skrifar
Þór/KA hefur unnið báða leiki sína til þessa.
Þór/KA hefur unnið báða leiki sína til þessa. vísir/Diego

Eftir að lenda undir snemma leiks kom Þór/KA til baka og vann 2-1 sigur á Tindastóli í Norðurlandaslag Bestu deildar kvenna í knattspyrnu. Akureyringar hafa nú unnið fyrstu tvo deildarleiki sína á tímabilinu. 

Það voru gestirnir frá Sauðárkróki sem byrjuðu betur og komust yfir strax á fjórðu mínútu leiksins. Elísa Bríet setti háan bolta inn á teig úr aukaspyrnu sem hrökk af varnarmanni fyrir fætur Makala Woods sem setti boltann auðveldlega í netið af stuttu færi.

Eftir tæpan stundarfjórðung var Sandra María óheppinn að jafna ekki fyrir heimakonur eftir frábæra sendingu yfir vörn gestanna frá Margréti Árnadóttur en Stólastúlkur björguðu á elleftu stundu. Á sömu mínútur virtist Bríet Fjóla vera jafna leikinn en hitti boltann illa af mjög stuttu færi og staðan því áfram óbreytt.

Örfáum mínútum síðar máttu engu muna að Makala Woods tvöfaldaði forystu gestanna eftir mistök í varnarleik Þór/KA en setti boltann í hliðarnetið úr þröngri stöðu.

Varnarleikur Þór/KA var mjög brothættur í hálfleiknum sem gáfu Stólastúlkum auðveld færi sem þær náðu ekki að nýta sér og sömuleiðis var Þór/KA ekki að nýta sín færi hinu megin.

Staðan í hálfleik 1-0 gestunum í vil.

Áfram hélt Þór/KA að spila á tæpasta vaði í öftustu línu og í raun og veru ótrúlegt að Tindastóll hafi ekki komist í 2-0 á 50. mínútu leiksins en Makala Woods fékk þá boltann alein gegn Jessicu í marki Þór/KA eftir slæma sendingu til baka en hitti ekki markið úr sannkölluðu dauðafæri.

Þetta klúður reyndist dýrkeypt því að mínútu síðar jafnaði Þór/KA leikinn. Karen María átti fyrst bylmingsskot í stöngina, því næst vann Bríet Fjóla boltann af varnarmanni Tindastóls innan teigs og kom honum á Söndru Maríu sem fleytti boltanum áfram á Kareni Maríu sem setti boltann snyrtilega í hornið.

Þór/KA var meira með boltann en Stólarnir settu háa pressu og gerðu heimakonum erfitt fyrir og sóttu hratt upp völlinn þegar boltinn vannst.

Sigurmark leiksins kom á 88. mínútu og var þar að verki bakvörðurinn ungi Bríet Jóhannsdóttir. Markið var skrautlegt en Bríet sendi nokkuð lausan bolta fyrir markið, meðfram jörðinni, en enginn leikmaður kom við boltann sem lak alla leið í fjærhornið. Svekkjandi fyrir Tindastól en fleiri urðu mörkin ekki og Þór/KA því með fullt hús stiga eftir tvo leiki.

Atvik leiksins

Sigurmark Bríetar sem ég lýsti hér að ofan. Upprunalega fyrirgjöf sem lekur alla leið í fjærhornið án nokkurrar snertingar. Leiðinlegt mark til að fá á sig sem sigurmark á lokamínútum en svona er boltinn. Skemmtilegt fyrir Bríeti að skora svona mikilvægt mark fyrir uppeldisfélag sitt.

Stjörnur og skúrkar

Karen María var örugg á boltanum og átt góðan leik fyrir Þór/KA ásamt því að vera á skotskónum.

Margrét Árnadóttir var lúsiðug á miðjunni sem endranær og óheppinn að leggja ekki upp a.m.k. eitt mark.

Hulda Ósk átti fína takta inn á milli, sérstaklega þegar hún kom boltanum inn á teig á fyrsta tempói sem skapaði hættu.

Hjá Tindastóli skoraði Makala Woods og tók mikið til sín en endar eiginlega líka sem skúrkur fyrir að klúðra algjöru dauðafæri til að koma liði sínu í 2-0 sem hefði breytt leiknum heldur betur.

Elísa Bríet og María Dögg voru á fullu allan leikinn og gefa þessu Tindastóls liði helling eins og þær spila sinn fótbolta.

Dómarinn

Mjög vel dæmdur leikur hjá Bergvini og hann hrós skilið.

Stemmning og umgjörð

Leikið var í Boganum og var blankalogn en sólina vantaði vissulega. Nokkuð vel mætt en heyrðist lítið sem ekkert í áhorfendum nema í örskamma stund annað slagið þegar Halli Ingólfs heimtaði að fólk léti heyra í sér.

„Ætlum okkur stóra hluti í sumar”

Karen María í leik síðasta sumar.Vísir/Diego

Karen María Sigurgeirsdóttir, leikmaður Þór/KA, skoraði og átti góðan leik í 2-1 sigri á Tindastóli í dag.

Hvernig eru tilfinningarnar eftir þennan torsótta sigur?

„Bara mjög góðar, ótrúlega sátt með sigurinn, þetta var pínu ljótur sigur í dag en sigur er sigur.”

Tindastóll gaf Þór/KA alvöru leik í dag og hefði sigurinn vel getað dottið hinu megin. Karen segir styrk Tindastóls hafi komið sér nokkuð á óvart.

„Mér fannst þær alveg koma á óvart, þær eru með sterkt lið, miklu sterkara lið heldur en ég bjóst við, en bara skemmtilegur leikur fyrir okkur allavega”

„Mjög sátt með sex stig og við ætluðum okkur alltaf sex stig í þessum leikjum og ætlum okkur alltaf sigur í fyrstu leikjunum og öllum leikjum þannig ég er bara mjög sátt með liðið”, sagði Karen um byrjunina á tímabilinu en Þór/KA sigraði Víking örugglega í fyrstu umferð, 4-1, og er því með fullt hús stiga enn sem komið er.

Þór/KA mun að öllum líkindum spila lungann af mótinu í Boganum þar sem framkvæmdir standa yfir á Þórssvæðinu við byggingu á nýjum gervigrasvelli en Boginn hefur reynst erfiður heim að sækja.

„Við ætlum okkur stóra hluti í sumar, þannig já”, sagði Karen einfaldlega aðspurð hvort stefnan sé að gera Bogann að vígi fyrir liðið.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira