Enski boltinn

Ætlar að nota krakka í síðustu leikjum Man. United í ensku deildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rúben Amorim fagnar sigurmarki Manchester United á móti Lyon á Old Trafford í gærkvöld.i
Rúben Amorim fagnar sigurmarki Manchester United á móti Lyon á Old Trafford í gærkvöld.i Getty/Shaun Botterill

Rúben Amorim, þjálfari Manchester United, segist ætla að einbeita sér að Evrópudeildinni það sem eftir lifir af þessu tímabili.

Þetta gaf Portúgalinn út eftir að United tryggði sér sæti í undanúrslitum Evrópudeildarinnar í gærkvöldi.

Manchester United mætir spænska liðinu Athletic Bilbao í undanúrslitum keppninnar og sigurvegarinn kemst í úrslitaleik á móti annað hvort Tottenham eða Bodö/Glímt.

Það lið sem vinnur Evrópudeildina fær sæti í Meistaradeildinni á næsta tímabili en United á ekki möguleika á Meistaradeildarsæti í ensku úrvalsdeildinni í ár.

Mikilvægi Evrópudeildarinnar er því gríðarlegt. United er í fjórtánda sæti í ensku úrvalsdeildinni en getur ekki fallið. Deildarleikirnir verða því notaðir til að skoða ungu leikmenn liðsins í alvöru leikjum.

„Við verðum að einbeita okkur að Evrópudeildinni og munum því taka áhættu í ensku úrvalsdeildinni,“ sagði Rúben Amorim.

„Okkar fókus verður á Evrópudeildinni og ég mun því spila krökkunum í ensku úrvalsdeildinni. Stuðningsmennirnir verða að skilja það,“ sagði Amorim.

United er með 38 stig eða sautján stigum meira en Ipswich sem situr í efsta fallsætinu. Ipswich getur í mesta lagi náð átján stigum í lokaleikjum sínum. West Ham og Úlfarnir eru þremur sætum á eftir United og Tottenham er bara einu stigi á eftir Manchester United eins og staðan er núna.

Stuðningmenn United mega því fara að búa sig undir það að liðið endi enðar en í fjórtánda sæti í ensku úrvalsdeildinni í ár en það væri allt fyrirgefið ef liðið tryggir sér bikar og sæti í Meistaradeildinni á 2025-26 tímabilinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×