Fótbolti

Sjáðu Ísak fara á kostum í Sví­þjóð í dag

Sindri Sverrisson skrifar
Ísak Andri Sigurgeirsson fór á kostum með IFK Norrköping í dag.
Ísak Andri Sigurgeirsson fór á kostum með IFK Norrköping í dag. ifknorrkoping.se

Ísak Andri Sigurgeirsson var maðurinn á bakvið 3-0 sigur Norrköping gegn Halmstad í sænsku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag.

Garðbæingurinn fór hreinlega á kostum og skoraði sjálfur fyrsta mark leiksins eftir hlaup með boltann inn af vinstri kantinum, stuttan samleik og skot.

Ísak lagði svo upp mark númer tvö eftir að hafa aftur hlaupið inn af vinstr kantinum en í þetta sinn skoraði fyrirliðinn Totte Nyman. Þriðja markið kom svo í uppbótartíma þegar Ismet Lushaku skoraði

Ísak Andri og Arnór Ingvi Traustason léku allan leikinn fyrir Norrköping líkt og Gísli Eyjólfsson fyrir Halmstad. Birnir Snær Ingason kom svo inn á hjá Halmstad á 74. mínútu. 

Halmstad er enn með þrjú stig en Norrköping er núna með sex.

Ari Sigurpálsson var í liði Elfsborg sem vann Degerfors á útivelli, 1-0. Elfsborg var án Júlíusar Magnússonar sem er fótbrotinn en náði þó að innbyrða sigur með marki Simon Hedlund af vítapunktinum á 55. mínútu. Ara var skipt af velli á 72. mínútu og skömmu síðar fékk Degerfors víti en tókst ekki að nýta það. Elfsborg er í 4. sæti deildarinnar með sjö stig en Degerfors er með sex.

Þórir nálgast fallsæti á Ítalíu

Á Ítalíu var Þórir Jóhann Helgason á sínum stað í liði Lecce sem varð að sætta sig við 3-0 tap á heimavelli gegn Como. Lecce er í mikilli fallbaráttu, með 26 stig eftir 33 leiki, aðeins tveimur stigum fyrir ofan Venezia og Empoli sem bæði sitja í fallsætum og mætast á morgun.

Lecce hefur nú leikið tólf deildarleiki í röð án sigurs og tapað níu þeirra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×