Upp­gjörið: FH - KR 2-2 | Bæði lið enn án sigurs

Hinrik Wöhler skrifar
Björn Daníel Sverrisson (t.h.) skoraði en fékk að líta rauða spjaldið í upphafi seinni hálfleiks.
Björn Daníel Sverrisson (t.h.) skoraði en fékk að líta rauða spjaldið í upphafi seinni hálfleiks. Vísir/Anton Brink

FH og KR skildu jöfn í fjörugu jafntefli í fyrsta grasleik tímabilsins á Kaplakrikavelli í Bestu-deild karla í kvöld. Leikurinn fór 2-2 en Hafnfirðingar spiluðu einum færri lungann af seinni hálfleik og vörðust pressu KR undir lok leiks.

Júlíus Mar Júlíusson var fyrirliði KR í kvöld.Vísir/Anton Brink

Gestirnir úr Vesturbæ voru öflugir á fyrstu mínútum leiksins og ógnuðu að marki FH. Gabríel Hrannar Eyjólfsson kom KR á bragðið strax í upphafi leiks með sínu fyrsta marki í efstu deild.

Sending Hjalta Sigurðssonar fór í varnarmanni FH og hrökk út fyrir vítateiginn þar sem Gabríel Hrannar var mættur og lagði boltann snyrtilega í bláhornið.

Kristján Flóki Finnbogason var nálægt því að skora gegn sínum gömlu samherjum skömmu síðar en markvörður KR, Halldór Snær Georgsson, var fljótur að bregðast við og varði skot Kristjáns.

Fyrirliði FH, Björn Daníel Sverrisson, jafnaði leikinn skömmu síðar eftir hnitmiðaða hornspyrnu Böðvars Böðvarssonar. Björn Daníel stökk manna hæst í markteignum og stýrði knettinum í fjærhornið.

Böðvar Böðvarsson átti hnitmiðaða hornspyrnu sem rataði á kollinn á Birni Daníel.Vísir/Anton Brink

Sigurður Bjartur Hallsson, framherji FH, fékk upplagt marktækifæri undir lok fyrri hálfleiks en honum brást bogalistin og skallaði boltann yfir markið.

Fyrri hálfleikur var fjörugur en fleiri mörk voru þó ekki skoruð og staðan var 1-1 í hálfleik.

Halldór Snær Georgsson, markvörður KR, blakar boltanum frá.Vísir/Anton Brink

Hafnfirðingar urðu fyrir áfalli í upphafi seinni hálfleiks þegar Björn Daníel Sverrisson var sendur af velli eftir brot á Júlíusi Mar Júlíussyni á miðjum vellinum. Björn Daníel var of seinn í tæklinguna og fór aftan í Júlíus Mar sem lá óvígur eftir.

Þrátt fyrir að vera manni færri gáfust Hafnfirðingar ekki upp og komust yfir skömmu síðar. Baldur Kári Helgason skoraði sitt fyrsta mark fyrir FH á 58. mínútu þegar hann klippti boltann í netið eftir að boltinn datt út í vítateiginn eftir hornspyrnu.

KR-ingar voru þó ekki hættir og nýttu sér liðsmuninn. Luke Rae geystist upp hægri kantinn og gaf frábæra sendingu inn fyrir vörn FH. Eiður Gauti Sæbjörnsson kom fyrstur að boltanum, hafði betur í baráttunni við Ahmad Faqa og stangaði boltann í netið.

Eiður Gauti Sæbjörnsson fleygði sér á boltann og jafnaði leikinn fyrir KR.Vísir/Anton Brink

Gestirnir pressuðu stíft undir lok leiks án þess þó að ná að skapa sér nægilega hættulegt færi og leiknum lauk með jafntefli.

Atvik leiksins

Þrátt fyrir að vera einum færri þá komust Hafnfirðingar óvænt yfir á 58. mínútu. Baldur Kári Helgason kom FH-ingum í þægilega stöðu og náðu þeir að halda í stigið þrátt fyrir ágæta pressu KR undir lok leiks.

FH-ingar komust yfir þrátt fyrir að vera einum færri.Vísir/Anton Brink

Stjörnur og skúrkar

Björn Daníel Sverrisson átti kaflaskiptan leik. Hann byrjaði sinn fyrsta leik í deildinni á tímabilinu og átti góðan leik framarlega á miðjunni í fyrri hálfleik þar sem hann skoraði fyrsta mark FH með góðum skalla. Hann gerði stór mistök í upphafi seinni hálfleiks þegar hann var rekinn af velli og léku samherjar hans einum færri sem eftir lifði leiks.

Gabríel Hrannar Eyjólfsson var fremstur meðal jafningja hjá gestunum. Þrátt fyrir að spila aftarlega á vellinum þá var hann oft réttur maður á réttum stað í vítateig FH og var hársbreidd frá því að bæta við öðru marki í seinni hálfleik.

Luke Rae var sprækur á hægri vængnum.Vísir/Anton Brink

Luke Rae lét einnig finna fyrir sér á hægri vængnum. Hann átti hnitmiðaða sendingu á Eið Gauta í öðru marki KR og var mikil ógn af vængmanninum.

Dómarar

Sigurður Hjörtur Þrastarson, dómari leiksins, dró upp rauða spjaldið í upphafi seinni hálfleiks eftir groddaralega tæklingu frá Birni Daníel. Hann var of seinn í tæklinguna og tók Júlíus Mar harkalega niður. Stór ákvörðun en réttur dómur hjá Sigurði Hirti líkt og flestar aðrar ákvarðanir hans í kvöld.

Sigurður Hjörtur Þrastarson rak Björn Daníel af velli á 52. mínútu.Vísir/Anton Brink

Stemning og umgjörð

Kaplakrikavöllur skartaði sínu fegursta á síðasta degi vetrar, sér í lagi ef miðað er við árstíma. Hafnfirðingar opnuðu húsið 90 mínútum fyrir leik og var mætingin góð í blíðunni í Hafnarfirði. Rúmlega 1.200 manns mættu í stúkuna og létu vel í sér heyra.

Viðtöl

Heimir: „Létum þá sleppa vel með fyrri hálfleikinn“

Heimir Guðjónsson, þjálfari FH, bíður enn eftir fyrsta sigri tímabilsins.Vísir/Anton Brink

Heimir Guðjónsson, þjálfari FH, þarf að bíða aðeins lengur eftir fyrsta sigri FH á tímabilinu og segir að Hafnfirðingar hafi verið mun betri í leiknum í kvöld.

„Ég er sáttur með samstöðuna í liðinu en er ekki sáttur með jafntefli. Við vorum miklu betri í þessum leik, fyrir utan fyrstu 10-15 mínúturnar, eftir það óðum við í færum og létum þá sleppa vel með fyrri hálfleikinn,“ sagði Heimir eftir leik.

„Það var 1-1 í hálfleik en við héldum að skapa okkur færi þrátt fyrir að vera einum færri. Bara flottur leikur hjá FH-liðinu og eitthvað til að byggja á,“ bætti Heimir við.

Heimir segir að það hafi verið svekkjandi að ná ekki sigrinum þrátt fyrir að vera einum færri bróðurpart seinni hálfleiks.

„Já, allan daginn. Það voru forsendur fyrir því. Mathias [Rosenorn] þurfti að verja einu sinni í seinni hálfleik og svo skoraði Eiður [Gauti Sæbjörnsson] frábært skallamark. Ég man ekki eftir því að þeir hafi fengið fleiri færi.“

KR-ingar í baráttunni við Mathias Rosenorn.Vísir/Anton Brink

Heimir gat ekki mótmælt rauða spjaldinu sem Björn Daníel fékk og er sammála Sigurði Hirti, dómara leiksins.

„Það er erfitt að standa hér og segja að það hafi ekki verið réttur dómur. Þetta var hárrétt hjá Sigurði Hirti sem dæmdi leikinn að mínu viti frábærlega“

Baldur Kári Helgason skoraði sitt fyrsta mark fyrir FH og skiljanlega er þjálfarinn stoltur og ánægður með leikmanninn unga.

„Mér fannst hann góður í þessum leik. Hann hefur verið að stíga upp hægt og bítandi. Móti Fram náði hann ekki sínum hæstu hæðum en var mjög flottur í þessum leik. Duglegur inn á miðjunni og vann margar bolta og lokaði sendingarleiðum. Átti margar góðar sendingar, fínn leikur hjá honum og verður bara að halda áfram.“

FH leitar enn að sínum fyrsta sigri og er aðeins með eitt stig eftir fyrstu þrjár umferðinnar.

Er stigasöfnunin undir pari?

„Auðvitað er það, mér fannst við byrja vel á móti Stjörnunni en fengum ekkert úr þeim leik. Það var sama upp á teningnum, eitthvað draugamark og við fengum mikið af færum í þeim leik. Leikurinn á móti Vestra var „off“ leikur og þeir áttu skilið að vinna. Þetta voru framfarir og það er það sem við viljum sjá. Auðvitað aðeins undir pari en það eru bara þrjár umferðir búnar og við þurfum að halda áfram,“ sagði Heimir að endingu.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira