Innlent

Tæp­lega tíu milljarða viðsnúningur

Árni Sæberg skrifar
Heiða Björg borgarstjóri kynnti jákvæðan ársreikning fyrir árið 2024 í morgun. Einar Þorsteinsson var borgarstjóri allt það ár.
Heiða Björg borgarstjóri kynnti jákvæðan ársreikning fyrir árið 2024 í morgun. Einar Þorsteinsson var borgarstjóri allt það ár. Vísir

A-hluti Reykjavíkurborgar skilaði 4,7 milljarða króna afgangi í fyrra, sem er 9,7 milljarða króna viðsnúningur frá fyrra ári. Rekstrarniðurstaða A- og B- hluta Reykjavíkurborgar fyrir árið 2024 var jákvæð um 10,7 milljarða króna, sem er 14,1 milljarði betri niðurstaða en árið áður.

Í fréttatilkynningu um ársreikning Reykjavíkurborgar, sem lagður var fyrir borgarráð í dag og vísað til borgarstjórnar, segir að í fjárhagsáætlun ársins 2024 hafi verið gert ráð fyrir að rekstrarniðurstaða A-hluta yrði jákvæð um 650 milljónir króna.

Tíu prósenta tekjuaukning

Viðsnúning í rekstri A-hluta megi meðal annars rekja til þess að tekjur hafi aukist um 10,2 prósent á meðan rekstrargjöld hafi aðeins aukist um 7,6 prósent án afskrifta og breytinga á gjaldfærslu lífeyrisskuldbindinga. Þá hafi lífeyrisskuldbinding A-hluta lækkað á milli ára og skilað tekjufærslu að fjárhæð 847 milljónum króna. Fjárhagsáætlanir hafi að öðru leyti að mestu gengið eftir.

„Það skiptir miklu máli að halda áfram að gera betur og forgangsraða fjárfestingum og þjónustu fyrir fólkið í borginni, fyrir sjálfbæra og réttláta framtíð okkar samfélags,“ er haft eftir Heiðu Björgu Hilmisdóttur borgarstjóri. 

Vert að minnast á að nýr meirihluti með Heiðu Björgu í forystu var ekki myndaður fyrr en í febrúar þessa árs.

Stöðugildi A-hluta hafi að meðaltali verið 8.606 á árinu 2024 og fjöldinn hafi breyst óverulega frá árinu 2023.

Þremur milljörðum umfram áætlun

Rekstrarniðurstaða A- og B-hluta hafi verið þremur milljörðum krónum betri en áætlað var í fjárhagsáætlun ársins. Faxaflóahafnir, Orkuveita Reykjavíkur, Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins og Strætó, ásamt A-hluta borgarinnar hafi öll skilað betri niðurstöðu en gert hafði verið ráð fyrir. 

Þyngst vegi afkoma A-hluta eða þess rekstrar sem rekinn er af skatttekjum en hann hafi verið um fjórum milljörðum betri en áætlað var. Afkoma Orkuveitu Reykjavíkur hafi verið tæplega þremur milljörðum umfram áætlanir og afkoma Faxaflóahafna hafi verið 815 milljónum krónum umfram áætlanir, sem megi að miklu leyti rekja til aukinna tekna af hafnarþjónustu. Afkoma Félagsbústaða hafi verið undir áætlun þar sem matsbreytingar fjárfestingaeigna hafi verið lægri en forsendur gerðu ráð fyrir en tekjur félagsins fyrir vexti, skatta og afskriftir, EBITDA, hafi hins vegar verið sterkari en áætlað hafði verið. Afkoma Sorpu hafi verið undir áætlun, sem megi rekja til afskrifta umfram áætlanir.

Skuldaviðmið A- og B-hluta samkvæmt sveitarstjórnarlögum og reglugerð um fjárhagsleg viðmið og eftirlit með fjármálum sveitarfélaga lækki milli ára og hafi verið 104 prósent í árlok 2024 en hafi verið 110 prósent árið 2023. Skuldaviðmið A-hluta hafi verið 77 prósent og lækki um fimm prósentustig frá fyrra ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×