
Tónlist
Stílisti U2 gefst ekki upp

Eins og áður hefur komið fram heyja nú U2-menn og fyrrverandi stílisti þeirra, Lola Cashman, stríð fyrir dómstólum um yfirráð yfir flíkum sem U2-menn segja Lolu hafa stolið af þeim. Auk Stetson-hattsins sem Bono var með á hausnum á umslagi plötunnar Rattle and Hum snýst baráttan um eitt par af eyrnalokkum, bómullarpeysu og svartar buxur. Á þriðja degi réttarhaldanna greindi Lola frá því að samband hennar við Bono hefði verið mjög náið. Sem sönnun fyrir því lét hún sýna myndband frá tónleikum U2. Þar rýkur hún á sviðið með kampavínsflösku, sparkar í „karlmennsku" Bonos og skýtur kampavínstappanum framan í hann. Á myndbandinu brást Bono við þessu með því að segjast elska hana og biðja hana að koma aftur. Þetta telur Lola vera sönnun á sérstöku sambandi hennar við Bono, og styðja þá fullyrðingu hennar að henni hafi verið gefin fötin. Bono hefur áður sagst fara hjá sér út af réttarhöldunum og það er kannski ekki nema von.