Barcelona tapaði í kvöld á heimavelli sínum fyrir Atlético Madrid, 1-3 í spænsku úrvalsdeildinni í fótbolta. Þetta er fyrsta tap liðsins eftir að hafa unnið 18 leiki í röð í öllum keppnum.
Fernando Torres skoraði tvisvar fyrir gestina en Henrik Larsson gerði eina mark heimamanna sem eru efstir með 52 stig, 9 stiga forskot á Valencia sem náði að saxa á forskotið í gær með 0-1 útisigri á Deportivo La Coruna.
Ronaldinho var ekki í leikmannahópi Barcelona í kvöld en hann tók út leikbann eftir að hafa fengið rautt spjald í síðasta leik. Þá vantaði einnig Samuel Etoo sem er með landsliði Kamerún í Afríkukeppninni og Xavi var einnig fjarverandi vegna meiðsla.
Real Madrid er í 3. sæti með 42 stig eftir sigur á Espanyol í gær en Osasuna sem er í 4. sæti með 40 stig gerði markalaust jafntefli við Sevilla í dag.
6 leikjum er lokið í deildinni í kvöld.
Getafe 2 - 2 Deportivo Alaves
Racing Santander 0 - 1 Celta de Vigo
Real Sociedad 2 - 1 Mallorca
Villarreal 1 - 1 Cadiz
Zaragoza 4 - 3 Real Betis
Barcelona 1 - 3 Atletico Madrid