Leikritið Systur eftir Þórunni Guðmundsdóttur verður frumsýnt í Möguleikhúsinu næstkomandi miðvikudag. Leikritið fjallar um þrjár systur sem missa móður sína á unga aldri. Þar er skyggnst inn í íslenskan raunveruleika, kaldranalegan og hversdagslegan á yfirborðinu en litskrúðugan þegar betur er að gáð. Leikritið er í senn hrollvekjandi dramatík og ærslafullt grín að því er fram kemur í tilkynningu frá Möguleikhúsinu.
Leikstjórn er í höndum Þorgeirs Tryggvasonar og með aðalhlutverk fara Hulda B. Hákonardóttir, Júlía Hannam, Elísabet Indra Ragnarsdóttir og Jónína Björgvinsdóttir. Fyrirhugaðar eru sex sýningar á verkinu.
Möguleikhúsið við Hlemm frumsýnir nýtt leikrit
