Diego Forlan, framherji Villarreal, segir sína menn eiga nóg inni fyrir síðari leikinn gegn Arsenal annað kvöld en viðurkennir að Arsenal hafi verið í bílstjórasætinu í þeim fyrri. Hann segir að allt annað verði uppi á teningnum á El Madrigal annað kvöld.
"Við spiluðum alls ekki vel í fyrri leiknum og Arsenal lék mjög skipulega og hindraði okkur frá því að ná að spila okkar leik. Þeir spiluðu með fimm manna miðju, en náðu samt að sækja hratt á okkur. Ég held samt að allt annað verði uppi á teningnum á El Madrigal og þar munum við setja miklu meiri pressu á Arsenal," sagði Forlan.
