Þrír Pakistanar, voru teknir af lífi í Saudi-Arabíu, í dag, fyrir smygl á fíkniefnum. Þetta voru tvær konur og einn karlmaður. Þau voru hálshöggvin á almannafæri.
Saudi-Arabíu er stjórnað samkvæmt ströngum lögum múslima. Þar er fólk tekið af lífi fyrir morð, nauðganir og fíkniefnasmygl. Yfirleitt er fólkið hálshöggvið með sverði, á almannafæri. Það sem af er þessu ári hafa tuttugu manns verið teknir af lífi.
Það er talsvert minna en á síðasta ári, þegar 86 voru teknir af lífi. Yfirvöld vilja ekki útskýra þennan mun, en mannréttindasamtök hafa deilt hart á þau fyrir mikinn fjölda af aftökum á síðustu árum.