Englandsbanki birti verðbólguskýrslu sína fyrir fjórða ársfjórðung í dag. Bankinn býst við að verðbólgan lækki hraðar en áður hafði verið gert ráð fyrir og verði 2,7 prósent í lok árs en fari svo niður í 2 prósent um mitt næsta ár.
Greiningardeild Glitnis segir í Morgunkorni sínu í dag að spáin sé nokkuð breytt frá skýrslunni sem bankinn gaf út í ágúst en þá var gert ráð fyrir að verðbólgumarkmiðinu yrði náð á árinu 2008.
Stýrivextir í Bretlandi eru nú 5 prósent og forsenda fyrir spánni sú markaðurinn geri ráð fyrir að vextir haldist óbreyttir.
Greiningardeildin segir því athyglisvert að fylgjast með viðbrögðum fjárfesta og framvirkum samningum á næstunni í ljósi þessa.
Englandsbanki spáir hraðari lækkun á verðbólgu
