Miðasala á tónleika skosku hljómsveitarinnar Franz Ferdinand hinn 14. september nk. hefst í dag í verslunum Skífunnar, BT á landsbyggðinni og á vefsíðunni Midi.is. Tónleikarnir fara fram á Nasa og í tilkynningu segir að miðaframboð á tónleikana sé takmarkað.
Meðlimir Franz Ferdinand óskuðu sérstaklega eftir því að fá að spila í Reykjavík og hafa í hyggju að prufukeyra lög af væntanlegri breiðskífu sinni í bland við að spila sína helstu smelli. Þetta er í annað sinn sem hljómsveitin spilar hér á landi en hún hélt vel heppnaða tónleika í Kaplakrika fyrir tveimur árum.