Brattar brekkur í umferðarkerfinu á Akureyri valda ítrekað slysum. Landsþekktur ökuþór segir opinbera aðila ábyrga fyrir umbótum en lögreglan segir varkárni ökumanna mikilvægasta. Harður árekstur varð í gær á mótum Þórunnarstrætis og Glerárgötu á Akureyri. Slysið er rakið til hálku en þarna geta akstursaðstæður orðið mjög varasamar og betra að fara sér hægt.
Þórunnarstrætið stendur í brekku og er brattinn einna mestur neðst í götunni. Segir Birgir Þór Bragson einn helsti aksturssérfræðingur landsins að yfirvöld, það er Vegagerðin og Akureyrarbær, beri ábyrgðina á þeim árekstrum sem þarna hafi orðið. Strax verði að gera lagfæringar.
Samkvæmt mælingum Vegagerðarinnar eru þessi gatnamót einn svartasti bletturinn í umferðinni á Akureyri, það er hér verða hvað flestir árekstrar.
Þessar götur tvær, Glerárgata og Þórunnarstrætið voru lagðar árin 1966-68 og er hallinn hér á Þórunnarstrætinu barn síns tíma.
Ólafur Ásgeirsson aðstoðaryfirlögregluþjónn á Akureyri telur ekki óeðlilegt að mörg slys verði á þeim gatnamótum sem séu hvað fjölförnust. En hann hafnar því að vegagerðin eða bærinn beri hér mesta ábyrgð. Fyrst of fremst sé það á ábyrgð ökumanna að aka eftir aðstæðum.
En hér í Kaupvangsstrætinu eða Gilinu eins og það kallast í daglegu tali bæjarbúa er brattinn hvað mestur í umferðinni. Hér er hallinn 10-17% þar sem hann er mestur og akstursaðstæður mjög varasamar. En þrátt fyrir þetta eru slys hér furðu fátíð að sögn lögreglu, enda fara hér flestir varlega eins og í dag þar sem flughált er á götunum.
Innlent