Tölvunarfræðideild Háskólans í Reykjavík heldur forritunarkeppni framhaldsskólanna í sjötta sinn í dag. Átján lið frá tíu framhaldsskólum keppa að þessu sinni. Keppt er í þremur þyngdarflokkum en keppnin skiptist í tvo hluta.
Fyrir hádegi var keppt í smærri verkefnum en eftir hádegi spreita keppendur sig á því að hanna tölvuleik á þremur til fjórum klukkutímum. Í lokin verða veitt vegleg verðlaun fyrir flottustu og bestu lausnina. Samhliða forritunarkeppninni er haldin Lógókeppni. Lógóið sem vinnur verður notað sem hluti af kynningarefni keppninnar skólaárið 2007-2008. Alls bárust 25 lógó í keppnina í ár.