Leikur Everton og Zenit St. Pétursborgar í Evrópukeppni félagsliða verður sýndur í beinni útsendingu á Sýn á miðvikudaginn.
Kristinn Jakobsson mun dæma leikinn sem fer fram á Goodison Park, heimavelli Everton. Honum til aðstoðar verða þeir Sigurður Óli Þorleifsson og Ólafur Ingvar Guðfinsson. Fjórði dómari verður Magnús Þórisson.
Hann hefur áður dæmt í riðlakeppni mótsins á tímabilinu en hann dæmdi leik Spartak Moskvu og Bayer Leverkusen í Moskvu.
Everton hefur unnið báða leiki sína til þessa í A-riðli keppninnar og er í efsta sæti riðilsins með sex stig. Zenit kemur næst með fimm stig eftir þrjá leiki en liðið er einnig taplaust.
AZ Alkmaar, lið Grétars Rafns Steinssonar, er í sama riðli og með fjögur stig eftir tvo leiki í þriðja sæti.
Leikurinn hefst klukkan 19.45 á miðvikudaginn kemur.