Þýski risabankinn Commerzbank ákvað í gær að kaupa landa sinn Dresdner-banka. Kaupverð nemur 9,8 milljörðum evra, jafnvirði 1.200 milljörðum íslenskra króna. Viðskiptin gera Commerzbank að öðrum umsvifamesta banka Þýskalands á eftir Deutsche Bank.
Til að byrja með kaupir Commerzbank sextíu prósenta hlut í Dresdner Bank í skiptum fyrir hlutabréf. Seljandi, sem er þýski tryggingarisinn Alliance, fær 30 prósenta hlut í Commerzbank að verðmæti 3,2 milljarðar evra, og verður umsvifamesti hluthafi bankans í kjölfarið. Commerzbank stefnir á að ljúka kaupunum á afgangi bankabréfanna fyrir lok næsta árs.
Starfsmenn beggja banka munu, þegar kaupin ganga í gegn, verða sextíu þúsund talsins og viðskiptavinir tólf milljónir. Útibú bankans verða átján hundruð.
Vefútgáfa þýska dagblaðsins Spiegel segir kaupin styrkja mjög þýskan fjármálaheim í kjölfar óróleika á alþjóðlegum mörkuðum. Óvíst sé hins vegar hvað leynist í bókum Dresdner-banka en bankinn situr á miklu magni skuldabréfa og lánum, sem tengjast fasteignum beggja vegna Atlantsála.