Elskumst í efnahagsrústunum er yfirskrift tónleikaferðar hljómsveitanna Skáta og Bloodgroup sem hefst á miðvikudag. Tónleikaferðin er hluti af verkefninu Innrásin sem styrktarsjóðurinn Kraumur kom á fót í vor.
Leiðir Skáta og Bloodgroup lágu fyrst saman á styrktartónleikum fyrir systursamtök Stígamóta á Akureyri, Aflið, í júní í fyrra. Hljómsveitirnar spiluðu einnig saman í Bræðslunni á Borgarfirði eystri og í Valaskjálf á Egilsstöðum í sömu ferð við góðar undirtektir. Hljómsveitirnar Sykur, Dlx Atx og Skakkamanage koma einnig við sögu í tónleikaferðinni.

