Skoðun

Stórtíðindi í vændum?

Einar K. Guðfinnsson skrifar
Einar K. Guðfinnsson skrifar um Evrópumál

Þegar talsmaður Evrópusambandsins kveður svo afdráttarlaust upp úr um sjávarútvegsstefnu sambandsins sem gerðist nú á dögunum, þá eru það stórfréttir. Reinhard Priebe, aðstoðarframkvæmdastjóri sjávarútvegmála ESB, sagði í útvarpinu á þriðjudaginn var: „Ég tel ekki að innganga Íslendinga í ESB þýddi að allt sem lýtur að fiskveiðistefnunni breyttist. Ég býst frekar við að það kæmi fólki á óvart hve fátt þyrfti að breytast."

Aðeins tvennt getur skýrt orð talsmanns ESB. Í fyrsta lagi að hann eigi við að ESB sé tilbúið að víkja til hliðar veigamiklum grundvallaratriðum í sjávarútvegsstefnu sinni í samningum við Íslendinga, æskjum við inngöngu.

Hér er til dæmis átt við atriði er lúta að ákvörðun um heildarafla. Þær ákvarðanir eru nú teknar af ráðherraráðinu, en ekki af einstökum þjóðríkjum. Það sjá allir - og um það hefur a.m.k. ekki verið ágreiningur hingað til að við Íslendingar myndum ekki geta unað því að slíkar ákvarðanir um nýtingu okkar auðlindar yrðu teknar af öðrum þjóðum. Og við vitum að þó að reglan um hlutfallslegan stöðugleika gefi okkur skjól fyrsta kastið þá er hún býsna völt.

Með öðrum orðum. Eins og sjávarútvegsstefna ESB er í laginu, þá tryggir hún einstökum aðildarþjóðum ekki það forræði yfir fiskveiðiauðlindum sínum, sem við gerum kröfur um. Þess vegna, meðal annars, hafa nær allir talið að hún sé óaðgengileg fyrir okkur Íslendinga.

Fyrir nú utan hitt að í sjávarútvegsstefnunni eru ýmsir aðrir þættir sem við eigum örugglega erfitt með að kyngja. Ég nefni reglurnar um brottkast, eftirlitskerfið og fjárfestingar, sem er alveg andstætt okkar fyrirkomulagi.

Hitt sem kann að skýra ummælin, sem vitnað er til, er að framundan séu mjög veigamiklar breytingar á sjávarútvegsstefnunni. og að í þeim felist, að horfið verði frá yfirþjóðlegu valdi, af því tagi sem nefnt var hér fyrr í greininni. Það væru sannarlega tíðindi.

Á vettvangi ESB hefur verið unnið að margs konar endurbótum á sjávarútvegsstefnunni. Til þess stendur meðal annars ríkur vilji innan framkvæmdastjórnarinnar, eins og fram hefur komið.

En hver hefur sinn drösul að draga. Og það vitum við að jákvæður vilji er eitt, en hitt er erfiðara, að fá þann sundurleita hóp sem að sambandinu stendur, til að samþykkja slíkar breytingar.

Höfundur er sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.








Skoðun

Skoðun

Hin­segin réttindi til fram­tíðar

Bjarndís Helga Tómasdóttir,Kristmundur Pétursson,Vera Illugadóttir,Jóhannes Þór Skúlason,Hannes Sasi Pálsson,Hrönn Svansdóttir,Sveinn Kjartansson skrifar

Sjá meira


×