Skoðun

Nú er tíminn

Kosningarnar 25. apríl nk. eru fyrir margt ansi mikilvægar. Við hrun efnahags­kerfisins hefur myndast tækifæri til þess að byggja upp nýtt og réttlát samfélag sem grundvallast á gildum jafnaðar, réttlætis og lýðræðis eftir hugmyndafræðilegt hrun frjálshyggjunnar. Síðustu árin hefur samfélag okkar einkennst af gildum þar sem græðgin og einstaklingshyggjan réði ferðinni undir stjórn Sjálfstæðisflokksins. Arðsemi, eiginfjárhlutfall, rekstrar­leg hagkvæmni og fleiri hugtök í þessum anda lágu til grundvallar öllum helstu ákvörðunum jafnt hjá fyrirtækjum og stjórnvöldum.

Þessa tíma eigum við eftir að minnast sem tíma þar sem einkavinavæðingin náði hámarki, samfélagvitundin dofnaði, og siðferði spilltist, með vaxandi ójöfnuði. Við höfum val í kosningunum sem fara fram 25. apríl um að kjósa fólk til áhrifa sem hefur sameinast undir merkjum jafnaðarstefnunnar, þeirri hugmyndafræði sem hefur aldrei hefur verið jafn mikil þörf fyrir eins og nú.

Breytinga er þörf

Næstu árin koma stjórnmálin til með að snúast um stóru línurnar. Við þurfum að taka afstöðu til ýmissa mála, þ.m.t. hvort við viljum gera breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu, hvort við viljum gera breytingar á landbúnaðarkerfinu, hvort við viljum við skoða tækifærin sem geta falist í aðild að Evrópusambandinu og hvort við viljum halda byggð í landinu. Þessum spurningum hefur Samfylkingin svarað játandi. Við viljum gera breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu. Auðlindirnar í hafinu eru eign þjóðarinnar.

Þetta er réttlætismál sem þarf að tryggja í stjórnarskrá. Við viljum líka gera breytingar á landbúnaðarkerfinu og auka frelsi bænda til framleiðslu gæðaafurða og fullvinnslu. Við viljum skoða tækifærin sem felast í aðild að Evrópusambandinu en gerum kröfur um full yfirráð yfir auðlindum okkar og berum aðildarsamning undir þjóðaratkvæði. Síðustu árin hefur landsbyggðin setið á hakanum. Við höfum þurft að horfa upp á frestun framkvæmda vegna ofþenslu og samdráttar í efnahagslífinu. Nú er tími til þess að líta á lands­byggðina sem mikilvægan þátttakanda í uppbyggingar­starfinu sem er framundan.

Á landsbyggðinni eru ýmis tækifæri til atvinnusköpunar. Þar erum við með gjaldeyris­skapandi atvinnugreinar sem eru sérlega vel til þess fallnar að vinna á þeirri kreppu sem við erum í núna. En til þess að landsbyggðin fái notið tækifæra sinna til fulls verður hún að búa við samkeppnishæf skilyrði. Með samkeppnishæfum skilyrðum á ég við samgöngukerfi sem eru við hæfi á árinu 2009, öryggi í raforkuflutningum og öryggi í gagnaflutningum. Verum óhrædd við breytingar.

Verkefnin framundan

Framundan eru tímar þar sem þarf að taka erfiðar ákvarðanir, skera niður og forgangsraða. En það viljum við í Samfylkingunni gera með grunngildi jafnaðarstefnunnar að leiðarljósi, þar sem velferð og vinna eru sett í öndvegi. Við viljum bera ábyrgð og skila vel unnu verki.

Nýtum tækifærið og byggjum upp réttlátt samfélag. Það skiptir máli hverjir stjórna landinu!




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×